þriðjudagur, apríl 28, 2009

Erik sonur hennar Sky fékk krabbamein fyrir nokkrum árum. Hann hefur náð sér aftur en það eru helmingslíkur á að það taki sig upp aftur. Þetta þýðir að hann getur ekki keypt sér sjúkratryggingu. Sky hefur getað haft hann áhangandi á tryggingunni sem hún fær í vinnunni sinni en þegar hann verður 24 ára í vor hefur hún ekki lengur rétt á því. Drengurinn er ennþá í skóla og verður því tryggingalaus þar til hann fær sér sjálfur vinnu. Þetta er gott dæmi um harðneskjulega birtingarmynd heilbrigðistryggingakerfisins hér í BNA. Grundvallarvillan í því er sú að það er byggt upp til að skila hagnaði en ekki til að þjóna sjúklingum. Svo ég ljúki sögunni af Sky og Eric þá vill svo vel til að pabbi hans er ríkisborgari í Kanada og drengurinn fer þangað í vor og sest að hjá föður sínum til að komast inn í sjúkratryggingakerfið þar. Farsæll endir á þeirri sögu, að minnsta kosti í bili, vonum það besta.

sunnudagur, apríl 26, 2009

Ég fór með eldri börnunum á Saturday market hér í Eugene í dag. Afraksturinn var 2 "tie dye" flíkur, dolla af leir og 4 barmmerki með mikilvægum skilaboðum eins og: "make tea not war". Meðan við skoðuðum þann bás vel og vandlega spjallaði einn af eigendum hans við okkur og sagðist vera sósíalisti (hvað annað, hverjir aðrir eru tilbúnir til að tjá sig svo fjálglega á torgum) og sagðist m.a. hafa miklar áhyggjur af ívilnun kirkjunnar í líf fólks eins og afskipti af kynningu þróunarkenningarinnar í barnaskólum. Ég er að sjálfsögðu jafn áhyggjufull og hann af þessu ástandi mála og skil alls ekki hvernig trú og vísindi geta verið sett á sama pallborð á þennan hátt. Varð hins vegar að játa fyrir honum (aðspurð) að kirkjan væri rekin af ríkinu á Íslandi og grunnskólarnir væru allir kristilegir skólar með kristinfræðiuppfræðslu í öllum árgöngum. Varð hálf kindarleg við þetta og fegin að þetta var ekki rökrætt frekar. Stóð mig að því að reyna að finna á þessu þær jákvæðu hliðar að kannski væri trúarhitinn minni af þessum sökum, að minnsta kosti væri kirkjurækni ekki mikil, en það rann nú hálpartinn út í sandinn. Þegar við komum heim var Þráinn sokkinn í kosningasjónvarpið og ég stakk mér út í. Er rétt að koma upp úr núna.

þriðjudagur, mars 11, 2008

 

 

 

 

Posted by Picasa

mánudagur, mars 10, 2008

 

Þessa mynd teiknaði Sigtryggur af Þórdísi, á fyrstu dögum hennar í þessum heimi. Hann gerði margar tilraunir en það að teikna munninn á henni þvældist fyrir honum, því "ef hann teiknaði hann eins og hann er virtist hún leið" af því munnvikin snúa niður. Svo hann sleppti munninnum á endanum. Á myndinni er Þórdís reifuð, með húfu á höfðinu sem er bundin með slaufu undir hökuna.
Posted by Picasa

miðvikudagur, febrúar 13, 2008

Þessu er Sigtryggur búinn að vera að einbeita sér að síðustu daga:
 
Posted by Picasa

fimmtudagur, febrúar 07, 2008

Öskudagur
Sjá frétt á vef menntasviðs Reykjavíkurborgar um öskudag í Bústaðahverfi hér:
Líflegt götulíf í Bústaðahverfi á öskudag
Við erum afskaplega ánægð með hvernig til tókst.



sunnudagur, nóvember 04, 2007

Einkofi er kominn í nýjan búning!


laugardagur, mars 24, 2007

Einkofi fyrir:



Einkofi í dag, með nýjum gluggum, þaki og viðgerðum veggjum (enn eftir að klæða veggi):

sunnudagur, maí 14, 2006

Við Sigtryggur vöknuðum klukkan 9:50 í morgun! og morgunmaturinn hjá Öggu átti að vera klukkan 10! Stelpurnar voru löngu vaknaðar og lágu inni í sófa og horfðu á barnatímann. Það magnaða er að við vorum mætt hálfellefu! Ljúf samvera með þeim. Litaraftið sem verið var að skoða hjá hestunum hjá Jóni er svokallað glómoldótt!
Svo ætlaði Þorkell að skreppa niður í húsdýragarð og taka Jón Heiðar með og endaði á að taka Sigtrygg og stelpurnar líka. Ég notaði tækifærið og náði mér í kantskera og brúkaði hann óspart. Sótti krakkana í garðinn um klukkan þrjú, alsæl, höfðu fengið miða í rúllum í tækin hjá Þorkeli! Heyrðist stelpurnar hafa staðið sig ágætlega í að passa strákana. Jæja, þá lá beinast við að fara í Íscafe og kaupa ís sem var borðaður á teppi úti í garði. Í sólinni. Nema hvað, ég hentist í IKEA, árangurinn færð þú að sjá þegar þú kemur heim :) Ekki hafa áhyggjur, kaupi ekkert stórt án þíns álits.

Í gær var líka sólardagur í garðinum. Jökull bauð Sigtryggi í afmælið sitt sem hann var mjög spenntur fyrir. Vildi gefa honum derhúfu (hann gengur sjálfur með NimbleGen húfuna þessa dagana) svo það var auðvelt. Hins vegar stakk hann að minnsta kosti þrisvar af heim úr afmælinu. Leist ekkert á alla þessa krakka sem hann þekkti ekki. Jökull hafði boðið allri deildinni sinni skilst mér. Við fórum á endanum heim áður en afmælið var hálfnað. Mættum samt aðeins aftur til að taka þátt í að slá köttinn úr tunnunni. "Tunnurnar" eru víst farnar að fást hér, í Einu sinni var. Spurning hvort við höldum áfram að búa okkar til???

Já og svo spilað Kristborg voða vel á tónleikunum um morguninn. Og Oddný er búin að vera hjá okkur alla helgina, gleymdi ég ekki að segja það.

Kær kveðja!

fimmtudagur, maí 11, 2006

Hæ, hæ,
allt í gúddí hér. Krakkarnir sofnaðir. Við Sigtryggur komust ekkert smá langt í Lego Starwars í kvöld, við vorum bæði orðin eldrauð af æsingi :) Og Kristborg hoppaði 200 "setuhopp" á trampolíninu af því þú hafðir sagt henni að bæta upp fyrir tapaða leikfimistíma :) Heyrðu, tók til í dag, út úr leiðindum. Sárvantar kantskera. Og frídag. Morgunmatur hjá Öggu og Kela á sunnudaginn. Agga hringdi í kvöld, við töluðum um hesta. Hún ætlar að sýna mér skýrsluna um litina á hestum pabba hennar á sunnudag. Hlakka til. Eftir hellidembuna í dag er kvöldið er fagurt og stillt og það brakar í gróðrinum. Hann hlýtur að vera með vaxtarverki.
Svo eru vortónleikar í tónó á laugardaginn kl. 10 og viðtal í nýja tónó á mánudag klukkan 15:10, en hvenær er næsti tími hjá Berglindi???
Saknaðarkveðja.

þriðjudagur, júní 28, 2005

Nú er ég búin að fara með hana Sky vinkonu mína á helstu viðkomustaði Suðurlands. Það er gaman að gefa sér loksins tíma til að nema staðar við Skógafoss, Seljalandsfoss, Jökulsárlón o.s.frv. Ég mæli ótvírætt með ferð út í Ingólfshöfða að skoða lunda, skúm og fleiri fugla með ábúendum á Hofsnesi.
Best var að koma í sveitina þó, í Berunes. Stússast í fé, reka það í rétt, gefa lömbum ormalyf, mjólka eina sem var ósogin öðrumegin, vasast eitthvað. Ganga æðarvarpið, búið að vera kalt vor, fjallið er enn grátt og haginn ekki orðinn grænn heldur, kollurnar sitja enn, verptu með seinna fallinu í vor. Siggi var enn með féð í túninu en við slepptum hluta þess upp í fjall í vikunni. Þær voru orðnar svo spenntar að þær hlupu af stað upp túnið þegar hann opnaði hliðið, það þurfti engan rekstur. Litla lambið er enn inni í húsi, stækkar þó.
Börnin léku sér í búinu, Sigtryggur er orðinn áhugasamari en Kristborg og eldar af miklum krafti. Hún tekur þó til hendinni í eldhúsinu öðru hverju en er farin að hafa hugann við aðra hluti, leikurinn er að minnka í henni. Eða breytast. Ég kom heim með stóran poka fullan af rabarbara og er búin að elda sultu úr helmingnum í margar krukkur. Úti í skúr bíður poki af æðardún eftir að vera sendur í hreinsun. Á morgun.
“Think globally, eat locally” hefur verið mér ofarlega í huga upp á síðkastið og ég rækta kartöflur og skipulegg sultun á berjum og rabarbara, krækiberjapressun o.s.frv. Uppskerusúpur og heimabakað brauð skal vera þema haustsins. En í kvöld lögðumst við hjónin í ítalskar uppskriftir á panforte biscotti og risotto (undir rabarbarasultulykt), sem kom mér í ekki lægri hæðir. "My emotional life" skal vera heitið á ævisögu minni. Gæti orðið krassandi fyrir þá sem hafa á annað borð áhuga á slíku. Kveðjur, Elsa.

mánudagur, maí 30, 2005

Ég er hátt uppi í kvöld, með rauðvín og súkkulaði í munninum, Kraftwerk í eyrunum, dýrindis kvöldmat a la Þráinn í maganum, pavlovu í ofninum, efni í Pinjada í skottinu á bílnum og trampolín út í garði (eins og vera ber ef maður ætlar að vera maður með mönnum á Íslandi í dag). Afmælistíð Kristborgar er gengin í garð og bekkjarafmæli skipulagt á fimmtudag. Og svo erum við nýkomin úr sveitinni og þótt ég hafi velt því fyrir mér fram og aftur í dag hvernig ég gæti mögulega breytt um lífsstíl á þann hátt að ég gæti eytt sumrunum í sveitinni og minnkað stressið þá líður mér bara þokkalega í augnablikinu. Ég kom eiginlega ekki endurnærða úr fríinu heldur haldin meiri þrá eftir meira fríi. Sveitaferðin var ævintýri. Í dag er það lúxus að geta farið með börnin í sveit. Kristborg var í skýjunum og tók að sér pelagjafir til svöngu lambanna þriggja þrisvar á dag og Sigtryggur hjálpaði til af stakri prýði. Og þau fylgdust andaktug með burðinum. Sigtryggur átti gullmola:
(Sigtryggur talar hátt og snjallt og skemmtir öllum viðstöddum)

Sigtryggur: "mamma, ég er lítill!"
Ég: "já þú ert lítill en þú ert að stækka og ert nú orðinn svolítið stór"
Sigtryggur:"Kristborg fædddist á undan mér!"
Ég: "já"
Sigtryggur: "Ég er nýborinn!"
Ég: hvumsa
Sigryggur: "Það var slím á mér þegar ég fæddist!"
Ég: "já"
Sigtryggur: "Þú sleiktir mig!"

Ég hjálpaði kindum við burð í fyrsta sinn sem var mitt ævintýri. Gleðilegt ævintýri af því að það lukkaðist. Svo fórum við í fjallgöngu og fjöruferð og margt margt fleira sem of langt mál væri upp að telja. Og mamma og pabbi voru með og Svavar, Berglind og Elísa líka. Svaka gaman.

laugardagur, apríl 09, 2005

Krakkarnir mínir léku sér svo vel saman í gær (og þá verður mamma svo glöð :) ). Þau gerðu hús úr stólum og teppi í stofunni sem var einhvers konar sjóræningjabyrgi og söfnuðu þangað alls kyns gulli og gersemum. Eftir kvöldmatinn róaðist leikurinn og þau fóru að teikna saman. Sigtryggur fylgdist andaktugur með Kristborgu teikna manneskju, sem átti að vera hann. Hún teiknaði allt nema fæturna sem hann átti að fá að gera. Þá upphófst athyglisverður málarekstur. Sigtryggur stóð nefnilega á því fastar en fótunum að fæturnir ættu að koma út úr höfðinu á kallinum! Kristborg gerði allt sem hún gat til að sýna honum fram á að þeir ættu að koma út úr búknum, en án árangurs. Hann fékk því sitt fram á endanum og úr varð þessi fína mynd teiknuð í stíl blandaðrar stefnu 8 og 2 ára þroskastigs!

Svo var ég aldrei búin að segja frá því þegar við héldum uppi heiðri vannýttra endhúsáhalda og -tækja í sumarbústað við Álftavatn í byrjun mars. Þar var gert heimatilbúið tagliatelle pasta með pastagerðarvélinni, sushi með sushigerðarsettinu og ís í ísgerðarvélinni. Þetta var nautnahelgi, nema hvað ég var ekki til neinnar skemmtunar (frekar en vanalega svo sem) hundslöpp og þreytt. En þau hin, Svavar, Berglind, mamma, pabbi, Þráinn og börnin voru sæt og góð eins og þau eiga að sér.

Og við fórum á árshátið í vinnunni minni í frábærum sal í Iðu. Skemmtiatriðin vor hvert öðru betra og við vinkonurnar sem héldum að við yrðum með atriði aldarinnar með söngmyndbandinu okkar vorum bara (næstum :), játa okkur ekki alveg sigraðar) slegnar út með atriðum annarra. UVS var með frábæra stuttmynd og hin slógu í gegn líka. Svavar og Berglind voru með útgáfupartí Skakkamanage í Hvíta koti sama kvöld og við hjónin brugðum okkur þangað. Því miður misstum við af pabba kveða rímur og fara með gamanmál ásamt öllum öðrum dagskrárliðum en þegar við komum var dynjandi diskóstuð! og gleði eins og þessum félagsskap virðist eðlislægt.

Já og vorið kom og við horfðum á runnana bruma og krókusana skjóta upp kollinum og lóan kom og býflugan vaknaði. En veturinn kom aftur, móðgaður yfir að vera talinn af, nógu lengi til að við gátum rennt okkur nokkrar bunur á snjóþotu, gert snjókarl og snjólistaverk. Ég held að vorið sé komið á ný en það er bara engu treystandi í þessum efnum.

Og Hrefna og Anna Sólrún komu í heimsókn sem var æði. Söknuðurinn eftir Stanford kaflanum í lífi mínu er ekki horfinn og þær eru hluti af honum. Ekki gleyma að ég er líka full af þakklæti yfir honum, hann verður hvergi endurtekinn. Það tekur bara eitthvað nýtt við.

Í dag:
Sigtryggur: Mamma, hvar er pabbi?
Ég: Á ráðstefnu. Hann er að spjalla við fólk og læra ýmislegt nýtt.
Sigtryggur: Ó. Kannski er hann að læra að skjóta af fallbyssu!

Og Kristborg fékk að gista hjá ömmu og afa í nótt "Mig langar að taka einn slag við ömmu"

Kveðjur,
Elsa

miðvikudagur, febrúar 16, 2005

Sigtryggur fór í röraeyrnaaðgerð í þriðja sinn á ferlinum í dag. Í þetta sinn til að fjarlægja rör sem hafði fallið út en lá öfugu megin við hljóðhimnuna. Það var erfitt að sjá hann sofna og enn erfiðara að bíða eftir að hann vaknaði. Ég er búin að vera viðkvæm í allan dag (meira en vanalega sem sagt) og ef einhver myndi bregða mér gæti ég alveg brostið í grát. Svo engar snöggar hreyfingar takk fyrir! Svo kom læknirinn og sagði að allt hefði gengið vel og ég gaf honum nægan tíma til að segja mér sjálfur hvað hann hefði gert en þurfti að spyrja hann á endanum. “Svo þú hefur náð rörinu sem sagt?” Hann virtist hálfmóðgast. Málið er að ég treysti honum 98% en ekki að fullu. Ég vil að hann segi mér hvað hann gerði í stað þess að komast að því seinna að hann hafi óvart sett ný rör í eða fjarlægt hálskirtla í stað þess sem átti að gera. Er ég bara asni?

laugardagur, febrúar 12, 2005

Þá er maður skriðinn á fætur eftir enn eitt svallið. Svilkona mín hélt upp á fimmtugsafmæli sitt í gær með myndarbrag, 40 manna langborði og ræðuhöldum og tilheyrandi. Þeir úthaldsbestu stigu dansspor í lokin og það var ekki leiðinlegt. Mér var snúið í marga hringi af mönnum sem kunnu sitt fag og gerðu sitt besta til að aðstoða mig:
“step, step, cha, cha, cha, step, step . . ., finnum taktinn aftur, svona já og svo . . . step, step, cha, cha, cha . . .”
Og: “vinstri, hægri, hægri, vinstri, hægri, hægri, . . . hægðu aðeins á þér, svona já, slakaðu á . . . vinstri, hægri, hægri . . . ég er greinilega í allt of stórum skóm . . .”
Það hljóta allir að sjá hvað þetta var gaman.