föstudagur, október 31, 2003

Ferlega er ég þreytt og mygluð eittvað. Ég man ekki hvenær ég fór heim af Vegamótum í gær en það var vel fyrir miðnætti a.m.k. og ekki drakk ég svo mjög mikið. Skil þetta ekki. En það var rosa gaman. Og Kjúklinga Satay salatið var æði http://www.vegamot.is/matsedill.asp. Svo ætlum við að bruna í bústað á Flúðum í kvöld að hitta Langholtsvegsfjölskylduna. Vona ég hressist við þegar líður á daginn því við eigum eftir að finna hitt og þetta til fararinnar eins og gönguskó t.d. sem ég man alls ekki hvar eru. En mikið held ég að það verði gaman. . . mmmmm . . . heitur pottur. . . .

miðvikudagur, október 29, 2003

Fyrsti snjórinn er kominn. Jibbí! Snjókornin fóru að falla fyrir alvöru á meðan við borðuðum kvöldmat svo við snöruðumst út og rúlluðum boltum og gerðum snjóengla. Svaka gaman. Aumingja S hágrét þegar ég tók hann inn og ég þurfti að beita hann valdi til að ná honum úr útifötunum. Það var ekki gaman og hann varð að sjálfsögðu ennþá reiðari. Jæja, þau feðgin löbbuðu út í búð og keyptu búðing og rjóma sem var svaka gott og við hæfi í tilefni fyrsta snævarins.

sunnudagur, október 26, 2003

Þegar ég var skattgreiðandi í USA truflaði það samvisku mína ekki að gefa pening til samtaka sem létu til sín taka í pólitík þrátt fyrir að ég ætti þar ekki kosningarétt. Sem íbúi í landinu var erfitt að sitja algerlega hjá og þessi leið stóð opin. En nú? Þegar sömu samtök kölluðu eftir fjárframlögum til að hefja auglýsingaherferð sem á að opinbera sannleikann um Bush reif ég upp VISA kortið og hóf að slá inn númerið. En svo hætti ég við. Á ég að halda áfram að skipta mér af? Hef ég einhvern rétt á því? Og kemur þetta mér við? Á móti kemur að þetta er heimur okkar allra, ekki satt. Við styðjum hrjáða í öðrum löndum ekki síður en okkar eigin (jafnvel frekar?). Hví ekki að berjast með hinu góða gegn hinu illa. Ég veit að Guð stendur með mér og að minn Guð er betri. Allt í lagi, ég fór út af sporinu, röksemdafærsla valdamesta manns í heimi virðist smitandi. En ég er sannfærð. Tek aftur upp kortið!
Ég er úrvinda. Þ var í burtu í dag og ég reyndi að vera fyrirmyndar mamma með því að veita börnunum mínum fulla athygli helst hverja einustu stund. Það gerir samviskubit hinnar útivinnandi móður. Byrjuðum á föndri í morgun. Börnin lögðust á blaðrenninga og ég strikaði útlínur þeirra. Þetta vakti mikla lukku og entist þeim fram undir hádegi. Svo kom Oddný frænka og þá var tekið til við að blása upp blöðrur og búa til úr þeim hunda svo nú eru líklega til um tuttugu hundar í ýmsum litum af langskottsætt. Nú var brunað í Breiðholt til að gefa ungviðinu tækifæri til að taka út fjör sitt á langfeðrum og -mæðrum. Þar spiluðum við Life og þáðum vöfflur. Dömurnar blönduðu sér töfradrykk að hætti Harry Potters á meðan ég setti króka í gardínur sem mamma er búin að sauma fyrir okkur og fyllti svo bílinn af góssi, enda húsið enn hálffullt af okkar drasli. Segi og skrifa Drasli. Þá var haldið aftur í Koppó og tekið til við límmiðadundur og kjólaklæðnað og svo böðuð dömurnar S. Þær enduðu reyndar báðar í baðinu hjá honum en þetta gaf mér tíma til að setja upp gardínur fyrir tvo glugga. Fínt. Nú hringdi bjargvætturinn minn hún Anna og bauð okkur í súpu. Takk, takk. Við þangað og svo beint heim í háttinn. Nema ég, sem á eftir að hringja í foreldra barnanna í bekknum hennar K til að skipuleggja fund sem á aftur að skipuleggja bekkjarkvöld. Vei.
Meira seinna að hætti Toms Bawdens, löng saga.

fimmtudagur, október 16, 2003

Ég get ekki orða bundist. Ég dáist að Rás 1. Þar fer fram alvöru þáttagerð. Maður heyrir allt frá argasta pönki til hörðustu nútímatónlistar og enga blygðun. Áfram RÚV!

mánudagur, október 13, 2003

Fengum mömmu og pabba og Svavar í mat í gærkvöldi, það var mjög notalegt. Ég er svo ánægð með að eiga foreldra sem nenna að leika við börnin mín (og mig). Við vorum hér á tímabil í gær öll í halarófu undir trommutakti syngjandi Öxar við ána. Rosafjör. Og S klappaði ákaft að atriði loknu. Það var mjög fyndið. Hann klappar líka þegar ég syng fyrir hann Allir krakkar. Hann kann sig.

fimmtudagur, október 09, 2003

Áttum yndislega stund við viðtækið í kvöld, fyrst var barnaþátturinn Vitinn á dagskrá og öll fjölskyldan datt inn í að hlusta andaktug á upplestur úr Blíðfinni. Svo hófst bein útsending frá tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og ekki minnkuðu andaktugheitin við það. Mér leið eins og ég væri inni í miðri Öddu bók, þetta var sama andrúmsloftið.

þriðjudagur, október 07, 2003

Fór með K til tannsa í gær. Engin skemmd, en þegar hann er búinn að skoða hana spyr hann hvort hann eigi að pensla hana með flúor. Já er það ekki bara, segi ég. Svo hann gerir það. Svo er komið að því að borga, 7000 krónur rúmar. Ferlega er þetta orðið dýrt, hugsa ég. Svo færðu endurgreitt niðri á Tryggingastofnun segir daman. Ég fer þangað í dag, og fer þá loksins að rýna í reikninginn. Heyrðu, skoðunin kostaði 2000 en flúorinn 5000! Og hann spyr mig hvort hann eigi að pensla hana rétt eins og hárgreiðslukonan fléttar hana og setur í hana teygjur þegar hún er búin að klippa hana! Nema hvað teygjurnar og greiðslan eru ókeypis.