miðvikudagur, nóvember 26, 2003

Heyrði frábæra kjaftasögu um Björgólfsfeðga í matarboði um helgina. Hér kemur hún.
Inngangur: Eina leiðin til að byggja upp fyrirtæki og verða ríkur í Rússlandi er að vinna með mafíunni. (Þetta í sjálfu sér hljómar líklega, ekki ólíklegt að þeir feðgar hafi þurft að kaupa sér leið í gegnum stjórnkerfið, og víðar).
Meginmál: Mafíunni er annt um sína hagsmuni og sinn fjárhag og er þ.a.l. búin að koma útsendurum sínum fyrir á Íslandi til að fylgjast með því hvernig feðgarnir ráðstafa fénu.
Niðurlag: (Það besta kemur núna): Sönnunina fyrir þessu er að finna í Vesturbæjarlauginni. Þar er aldrei pláss í heitu pottunum því Rússarnir hanga þar sí og æ!
Hafiði lesið úttektina á áhrifum útsýnis á íbúðaverð í Reykjavík? Vel skrifuð grein og áhugaverð úttekt:Er landslag einhvers virði? Ég vona að ég sé ekki að fara með rangt mál en ég held að höfundur þessarar greinar hafi verið með eindæmum óvinsæll hjá Samtökum atvinnulífsins fyrir að gagnrýna framkvæmdirnar við Kárahjnúka. Nú er hins vegar titringur í þessum sömu samtökum vegna þess að hátt gengi krónunnar gerir það að verkum að fyrirtæki á Íslandi sem selja vöru sína erlendis fá lítið fyrir sinn snúð og eiga í kröggum. Sjá: Alpan fór á hausinn í gær! Og færri Íslendingar fengu vinnu við að steypa en Samtökin áttu von á. Æ, æ. Kannski Sigurður Jóhannesson hafi haft eitthvað til síns máls eftir allt saman?

sunnudagur, nóvember 23, 2003

Snjóslyddan slæst utan í gluggann. Allt hvítt svo langt sem augað eygir.

fimmtudagur, nóvember 20, 2003

góð grein um nýju fóstureyðingarlögin í BNA: Heather Mallick

þriðjudagur, nóvember 18, 2003

K var hjá ömmu sinni eftir hádegi í vetrarfríinu sínu. Þar unir hún sér afskaplega vel. Þegar við sóttum hana ókum við inn í vetrarríki í Breiðholtinu, allir krakkar úti í snjógalla, kaffærandi hvern annan o.s.frv. Og afi dró S um á sleða við mikla hrifningu. Þegar okkur var orðið mátulega kalt voru bornar fram pönnukökur með rjóma og tilheyrandi og svo færði K okkur gjöf sem var heil vatnsmelóna sem búið var að taka innan úr og fylla svo aftur með niðurskornum ávöxtum og berjum. Melónunni var svo lokað aftur og gylltur borði bundinn utan um. Alveg frábært, og óvænt. Þessu fylgdi svo hjartnæmt kort og við vorum að sjálfsögðu snortin. Eins og skaplyndið getur verið erfitt og stórbrotið stundum á hún þetta til og þegar á allt er litið á hún kannski einmitt oft auðvelt með að sína elsku á þennan hátt, rétt eins og aðrar tilfinningar.

fimmtudagur, nóvember 06, 2003

Bústaðarferðin var afskaplega ljúf. Landslagið var stórbrotið, einkum vegna þess að snjófölin gerði allar línur skarpar þannig að gil og klettar skáru sig úr. Og sólin skein. Bæði úti og inni en sér í lagi í sinni! Við átum, drukkum, spiluðum og spjölluðum og fórum í pottinn. Lékum okkur í fótbolta og sáum Strokk gjósa. Óskar og K tuðuðu stanslaust í hvort öðru eins og þau væru hjón til margra ára. Ekki laust við að það væri þreytandi að hlusta á fyrir okkur hin en þeim fannst þetta greinilega vera eins og þetta átti að vera. Obba sagði einhvern tíma: Óskar minn, mér finnst þú nú vera svolítið ókurteis núna. Þá segir Óskar við K: "Hún mamma er orðin eitthvað skrýtin þarna niðri". Þá segir K við Obbu: "Ja það hljómar kannski þannig þarna niðri hjá þér"! En greinilega ekki í þeirra eyrum! Gaman að þessu!