föstudagur, desember 10, 2004

Kæru vinir!
Þið eruð náttúrlega að springa af forvitni um hvað ég og mín fjölskylda ætlum að bardúsa um helgina.
Svarið er: við ætlum í sumarbústað! Það er nefnilega svo notalegt!
Til þess að gera þetta ætla ég að skrópa í jólahlaðborðið sem vinnufélagarnir ætla í enda eru jólahlaðborð að komast úr tísku og bráðum getur maður ekki verið þekktur fyrir að stunda slíkt! Hins vegar verður brunað til baka á sunnudaginn til að ná á jólatónleika í Salnum enda eru jólatónleikar á hátindi vinsælda sinna. Við munum því fylgja fjöldanum í þessu eins og öðru. Mjög mikilvægt. Erum meira að segja búin að fara á eina jólatónleika nú þegar og fáum þannig aukaprik í kladdann. Við laumumst reyndar til að vera lummó líka og leituðum uppi jólaglöggsblöndu til að blanda rauðvínið með en þetta má ekki fréttast enda er jólaglögg algerlega úti þessa stundina.
Jólaundirbúningurinn gengur annars bara vel, takk fyrir að spyrja! Það var allt skreytt heimavið og 3 tegundir að smákökum tilbúnar þegar aðventan gekk í garð. Við höfum átt afar hátíðlegar stundir þessa tvo fyrstu sunnudaga í aðventunni með kertaljósum, smákökuáti og sagnalestri. Nú er svo komið að Sigtryggur biður um smákökur og mjólk í hvert sinn sem hann rekur augun í jólasögubækurnar. Þessi snemmundirbúningur jólanna kemur nú til af því að hún dóttir mín kær var farin að stressast út af jólunum fyrir miðjan nóvember með spurningum eins og: Hvað ef eitthvað fer úrskeiðis? Og: Ég er svo hrædd um að við verðum ekki tilbúin!
Við virðumst þó hafa náð tilætluðum árangri því hún er nú bara orðin slök yfir þessu núna. Og mér finnst að ég ætti að fá verðlaun fyrir góða frammistöðu að þessu leyti!
Jæja, kæra fólk, nóg í bili, takk fyrir að hlusta!

föstudagur, desember 03, 2004

Stóra desemberkreppan:
Greiðir maður úr flækjunni á gömlu jólaseríunni eða kaupir maður nýja á 100 kall?

Já það eru engin smámál sem halda vöku fyrir mér þessa dagana.

föstudagur, nóvember 26, 2004

Í kaffitímanum í morgun sagði Júlía okkur frá því hvað það er gestkvæmt hjá bróður hennar í sveitinni. Það koma einhverjir í heimsókn í hvert sinn sem þau eru þar. Sífellt eru einhverjir að koma við og stoppa í mat o.s. frv.
“Ahhhh en frábært” stundum við hinar.
“Eitthvað annað en einangrunin hér í borginni sem ég er að verða vitlaus á” kvað ein.
“Já ég líka” andvörpuðum við hinar.
“En er þetta ekkert þreytandi”? spurði þá önnur.
“Jú alveg svakalega” sagði Júlía.
“Já einmitt” sögðum við hinar skilningsríkar.
“Og álag á hjónabandið að vera aldrei út af fyrir sig”.
“Jaaááá” (Allar í kór)
Því það má ekki vera of mikið af því góða.

Annars er komin jólastemmning hjá okkur, verið að skipuleggja föndur og við farnar að koma með smákökur með okkur til að deila í kaffitímanum. Það var Kristín Anna sem reið á vaðið með engiferkökum í fyrradag en í dag var það ég sem færði þeim marengssmákökur sem ég bakað gærkvöldi. Þráinn bjó nefnilega til rjómaís úr 28 eggjarauðum í gærkvöldi sem þýðir að 28 eggjahvítur hefðu farið til spillis ef ég hefði ekki bjargað þeim (að hluta).


fimmtudagur, nóvember 25, 2004

Þráni finnst hann hafa fengið ómaklega útreið, að því leyti að það hafi verið rangt eftir honum haft, í síðustu færslu og það er alveg rétt hjá honum.

þriðjudagur, nóvember 23, 2004

Ég bar fram þá frómu ósk fyrir svefninn í gærkvöldi að ég myndi vakna alveg ferlega hress, bara ný og fersk og svona hress týpa. Þráinn sagði eitthvað á þá leið að þá yrði kalt í helvíti. Það reyndist rétt, ég er alveg sami fýlupúkinn í dag og vanalega.

Sigtryggur sonur okkar flutti til ömmu sinnar og afa í gærkvöldi. Hann var þar í heimsókn seinni part dagsins og þegar ég kom að sækja hann neitaði hann að koma heim. “Ég bý hér. Þetta er húsið mitt. Ég vil ekki koma með þér heim til þín.” Og við það sat. Hann gisti þar í nótt. Ég hringdi í hann gærkvöldi, hann svaraði, og þegar ég spurði hann hvað hann væri að gera: “Amma er að prjóna og sauma og ég er að raða dótinu í kassann”. Þetta hefur náttúrlega verið alveg yndislegt. Hann dútlar sér á gólfinu og ekkert heyrist nema tifið í prjónunum. Ég skil hann vel.

En hann hélt áfram að fá sínu fram. Þegar kom að því að fara af stað í leikskólann í morgun fór hann að kjökra og settist inn í sófa. Pabbi fékk hann af stað með því að segja að þeir yrðu nú að keyra ömmu í vinnuna. Þegar þeir komu út í bíl lyfti drengurinn upp tveimur fingrum og sagði að þegar amma væri komin í vinnuna færu þeir TVEIR aftur heim. Nú var afi í bobba. Þegar amma var svo komin í vinnuna var þetta endurtekið, nú færu þeir tveir heim! Afi sagði að hann yrði nú að fara aðeins í vinnuna líka og litli samþykkti það. Og þar eru þeir nú!

fimmtudagur, nóvember 18, 2004

Guð og hommafóbían unnu kosningarnar í BNA og Gunnar í Krossinum fagnaði því ákaft að hans menn yrðu þar áfram við völd. Við fengum Kana í heimsókn sem voru á barmi taugaáfalls og þyrftu tvímælalaust á áfallahjálp að halda. Ég var farin að stappa í þau stálinu, af öllu fólki.
Kennarar búnir að semja (af sér) um sömu launahækkun og verið hefur á almennum markaði síðast árið.
Annars er farið að snjóa og börnin gleðjast og það geri ég líka í mínu barnslega hjarta.
Varð gæsku náungans aðnjótandi þegar ég spólaði í Mjóddinni, tveir kampakátir unglingspiltar á japanskum smábíl komu aðvífandi og ýttu mér úr vör. Ég greiddi skuld mína í sama þegar strætisvagninn sem ég var í komst ekki áfram vegna spólandi Jeppa. Strætóbílstjórinn fór út og setti lokurnar á fyrir manninn, smellti bílnum í fjórhjóladrifið fyrir hann og svo ýttum við honum af stað. Allir ánægðir.

þriðjudagur, nóvember 02, 2004

Kom aftur til Connecticut klukkan 3 um nótt og fleygði mér í sófann. Var rétt að festa blund þegar ég heyrði í Michael fram í eldhúsi, bölvandi og ragnandi. Stuttu síðar var hann farinn að spila PacMan enda gamall meistari og þetta gera þeir líklega á andvökunóttum. Ég velti því fyrir mér að láta hann vita af mér en var hrædd um að honum brygði og hann fengi hjartaáfall. Og ég yrði morðingi. Svo ég lét bara lítið fyrir mér fara og tókst á endanum að sofna í síbyljunni. Þegar Emma og Kristborg skottuðust inn um hálfáttaleytið sá ég að gamli svaf í stól þarna í stofunni hjá mér. Hann laumaðist svo hljóðlaust út fjótlega eftir að lætin hófust í krökkunum. Þegar ég hitti hann seinna um daginn spurði ég hann hvort ég hefði stolið hans plássi í sófanum :) en hann neitaði því. Ekki fer frekari sögum af honum.
Héldum upp á afmælið hennar Emmu á Flamig farm þar sem við fórum í frábæra heyvagnsferð um skóginn þar sem við hittum fyrir nornir og afturgöngur. Svaka gaman.
Skildum við þessa frábæru fjölskyldu sem allt stefnir í að við hittum næst í sjálfbærri hippanýlendu í nýju mexíkó og héldum til Boston seinnipartinn. Áttum ánægjulega kvöldstund með Elfari og fjölskyldu en fórum snemma í háttinn enda flug til CA klukkan 6:20 AM. Hver fann upp aðrar eins tímasetningar á flugferðir?

miðvikudagur, október 20, 2004

Eftir yndislegt I kvold I fadmi fjolskyldunnar ad 79 Monroe street rann upp laugardagsmorgunn, bjartur og fagur. Hradbrautir framundan. Hnutur I maga og hendur krepptar um styri enn a ny. Aksturleidbeiningar I kjoltu og kort til hlidar. Endastod: West Simsbury I Connecticut. 2,5 klst sidar nadum vid afangastad med sma uturdurum. Eg sagdi ad kortin hefdu bjargad okkur. Thetta er land rebublikana med rikidaemid vellandi og fataekrahverfin blaedandi. Folkid hefur kosid a greida ekki tekjustakk til ad deila nu ekki rikidaemi sinu med odrum og hefur I stadinn uppskorid fataekrahverfin eins og thau gerast verst med bokalausum grunnskolum. I mer svellur reidin eins hlytur ad gera I ollum sem hafa snefil af rettlaetiskennd. Og thau kjosa oll Bush. Nema natturlega Jennifer og thau. Vid nutum samvista vid hana, Vicky, Emmu, Pops og Unde. Hittum adeins Cathy, Ben og strakana adur en eg thurfti ad fara. Ja og atum Sushi sem var unadslegt. Raeddum politik, sjalfstyrkingu salarinnar og hvernig vaeri verdugt ad verja lifinu.
Eg var med hnut I maga og kokk I halsi thegar eg skildi vid thau en Kristborg var brosandi kat og hamingjusom.
Uff, flug fra Boston kl. 6AM. Hvad er meira um thad ad segja?
Nimglegen? Voda ahugavert all saman, ja, ja.
Langar samt eiginlega bara aftur heim.
En eg thrauka.
Brjalad vedur og frost heima. Gott ad vid erum buin ad taka upp kartoflurnar.
Var thetta ekki dalitid heimilisleg athugasemd?
Bless I bili.

þriðjudagur, október 19, 2004

Jaeja, vid flugum til Boston a fimmtudagskvoldi, 14. okt, eg illa sofin og urill og tokst nanast ad gereydileggja gledi Kristborgar med stressi. Vonandi fyrirgefur hun mer einhvern tima. Okum svo I gegnum Boston I myrkri. Med leidbeiningarnar I annarri hendi sem lika var kreppt um styrid ryndi eg ut um gluggann a gotuskiltin I skini ljosastauranni sem flugu framhja, jafnframt thvi ad reyna ad forda arekstri. Villtist ad sjalfsogdu en hafdi thad loksins heim til Elfars og Veronicu. Ahhhhh, loksins haegt ad slaka a og na oxlunum nidur fra eyrunum. Kristborg vaknadi klukkan fimm ad morgni og sudadi I mer til klukkan half sjo ad koma a faetur thar til hun heyrdi loksins I Aldisi og for fram af sjalfsdadum. Eg drosladist loksins a faetur og svo tokum vid ad okkur ad labba med Aldisi I skolann. Vid maedgur forum svo I budarrap I Belmont, sem var svaka gaman. Keyptum tvo tugi boka handa Kristborgu ad lesa I fasinninu I vetur, gjafir handa vinum heima og ad sjalfsogdu kleinuhring handa henni og kaffi handa mer a starbucks. I hadeginu gerdum vid Mac og Cheese vid mikla lukku. Svo sottum vid Aldisi I skolann og thaer leku ser stelpurnar af fullum krafti I haustlaufunum. Veronica er svo skorp ad hun krafdist thess ad vid faerum a AAA og naedum I vegakort sem vid og gerdum og atti heldur betur eftir ad koma ser vel.

miðvikudagur, ágúst 04, 2004

Hmm, síðan síðast hefur nú ýmislegt skeð. Spurning hvort ástæða er til að fara í þann sparðatíning að þylja það upp. Geri það samt, svona svo gögnin liggi fyrir.
Sum sé.

Fórum út að borða á Lækjarbrekku á föstudaginn með þeim sem stóðu að jarð- og líffræðinámskeiðinu fyrir bandarísku nemendurna í sumar og við Þráinn komum aðeins að (hann meira en ég). Þar rifjaði Gísli Már upp baráttuna gegn því að Torfan yrði rifin og morgunblaðshús byggð þar í staðinn. Skrautleg saga af honum, Sigga Snorra, Kristni Sigmundssyni og Megasi syngjandi baráttusöng í brekkunni sem var undanfari að stofnun Torfusamtakanna. Það sýnir sig að það borgar sig þegar upp er staðið að láta ekki endalaust yfir sig ganga og að stjórnamálamenn vita ekki baun í bala betur en við.

Sif fór. Og við grétum öll.

Innipúkinn var haldinn hátíðlegur á laugardaginn. Hvað stendur upp úr?
Hmmm. . .
Mammút kom mér í opna skjöldu og eftir að ég reiknaði aldur barnanna inn í dæmið eru þau enn meira furðuverk.
Súkkat voru frábærir.
Skakkamannage voru þétt og góð og vinsælust hjá okkur!
Og Benni hemm hemm var skemmtilegur.
En Ómar var einstakur. Ég sá útlending í framan eins og hann vissi ekki hvaðan á sig stæði veðrið og ég skil það vel. Það er ekki hægt að útskýra gleði múgsins yfir Ómari fyrir þeim sem ekki hefur alist upp með honum. Og maðurinn er ofvirkur. Ég gæti ekki hoppað, hamast og trallað eins og hann fyrir mitt litla líf enda var ég viss um að nú yrði brunað með manninn beint á bráðamóttöku þegar hann gekk af sviðinu.

Bæjó

þriðjudagur, júlí 20, 2004

Mætti aftur í vinnuna í dag eftir viku frí. Get ekki sagt að mér hafi þótt það sérstaklega gaman. Vinnan er ekki leiðinleg, ekki misskilja mig. Mig langar bara meira til að hangsa. Fara í hjólreiðatúra og svoleiðis. Á til dæmis eftir að kanna betur stígana í Öskjuhlíðinni. Hjólaði fram hjá henni í dag og enginn tími til að stoppa. Vantar alveg í mig starfsframalöngun, vil bara meira hangs, meira frí. Hví allt þetta strit? Nefni þetta í næsta starfsmannamati. Góð hugmynd hjá mér eða þannig.

Já heyrðu. Sif og Kristborg gerðu jafnvægisæfingar á hestbaki í dag. Lyftu handleggjunum upp til skiptis og svo báðum í einu á meðan hesturinn fór fetið eða brokkaði. Sif setti met; tveir og hálfur hringur í gerðinu með hendur upp fyrir höfuð! Svo áttu þær líka að snúa sér í hring við sömu aðstæður en þær treystu sé ekki í það nema Sif og þá eingöngu á meðan hesturinn stóð kyrr. Annars bara gleði heyrist mér. Fengu lummur í hádeginu (veit ekki hver semur matseðilinn þarna!) og máttu velja hvort þær fengju smjög og ost ofan á eða sykur (ekki batnar það). Vill einhver geta hvort þær völdu?
Fóru í Laugardalslaugina eftir hádegi og dönduluðust heima.
Hjólað um Dýrafjörð og Arnarfjörð
Meiri hjólreiðar

föstudagur, júlí 16, 2004

Þetta er nú bara svona um það bil eins og það á að vera. Sumarkjólaveður og yndislegt hangslíferni. Fyrst bjuggum við til hús í stofunni úr teppum og stólum. Komumst að því að teppin voru síðast notuð í lautarferð út á leikvöll með Sif, Nicole og Megan (Já, loksins kom Sif!) þegar stofan varð stráð heyi. Snérum mæðgnabönd. Lékum okkur svo úti til hádegis. Tókum þá til við að þvo hjólin sem voru í meiralagi rykug eftir hjólreiðarnar vestra. Sigtryggur reyndi sig á þríhjólinu sínu og okkur öllum til undrunar (ekki síst honum sjálfum) tókst honum að koma sér áfram fyrir eigin afli. Eftir það fékkst hann ekki af hjólinu nema með harmkvælum en var þó orðinn verulega pirraður því þetta gekk jú ekki fullkomlega hjá honum. Hjóluðum svo niður í Fossvog á bílaþvottastöðina til að nota stórvirkari tæki við hjólaþvottinn. Sú stöð slæst við Skeljung í Fellunum um titilinn Flottasta útsýnið við bílaþvottinn. Jæja, hjólin glansa og við höldum heim. Stoppuðum við á leikskólanum sem Sigtryggur byrjar á um miðjan ágúst. Spjölluðum við krakka yfir girðinguna og Sigtryggur varð afskaplega upprifinn af þessu öllu saman og talaði mikið um að kúka á leikskólanum! (kemur svolítið spánskt fyrir sjónir, drengurinn hefur nú ekki sýnt þessari athöfn sérstakan áhuga hingað til, hlýtur að vera einhvers konar koppauppeldi komið frá Huldu) Jæja, áfram heim að svæfa Sigtrygg. Við Kristborg sátum hins vegar ekki auðum höndum en tókum til við að hnoða deig í bollur. Skutluðum svo pabba út á flugvöll og sendum hann til Hornafjarðar að græða pening og fræða lýðinn. Skutluðumst sjálf niður á Laugaveg til að kaupa afmælisgjöf handa Jóa (flugdreka, ekki segja frá), og svo heim aftur. Allt á meðan deigið hefaðist. Hurru, brjálað að gera í bænum ma´ur. Fólk að spóka sig í blíðunni, Kristborg: “Hva, er menningarnótt eða hvað”. Nei ekki alveg en þetta slagaði hátt í þann fjölda. Jæja, bollurnar í ofninn og ömmu og afa og afa boðið í síðdegiskaffi úti í blíðunni.
 
Fórum upp í Reykjadal í gær til að baða okkur í heita læknum. Ferðin tók 3-4 klst á fæti og þar af rigndi í 20 mín einmitt þegar við ætluðum að hátt okkur ofan í lækinn. Þetta var ekki samkvæmt veðurspá og ekki umsamið.  Það fóru því bara sum okkar ofan í, þ.e. Kristborg og Megan. Nicole datt úr öllu stuði í rigningunni og mér fannst ekki freistandi að hátta okkur Sigtrygg, ekki síst þar sem við höfðum skilið sundfötin ásamt nestinu og myndavélinni eftir í bakpoka í andyrinu heima. Jæja, þegar baðið var búið og við tilbúin að leggja í hann til Hveragerðis gerði rjómablíðu á ný. Auðvitað. En dalurinn var fallegur og ísinn góður þegar gangan var á enda. Og við þreytt og sæl. Það var nú heldur meiri umferð af fólki þarna núna en þegar ég fór síðast. Það var þegar við vorum að gæsa Sólu og ætluðum að hefja kvöldið á hvítvíni í læknum, svo lágum við og kjöftuðum frá okkur allt vit, drukkum og skemmtum okkur stórkostlega þar til Þráinn kom labbandi ofan úr bíl til að gá að okkur (hann var sko bílstjórinn og beið eftir okkur upp á vegi), hélt eitthvað hefði kannski komið fyrir, við vissum ekkert hvað tímanum leið og orðnar langt á eftir áætlun. Við drifum okkur samt upp úr og komumst í bæinn og náðum einum drykk áður en barirnir lokuðu. Þetta er ógleymanlegt.
 
Já og loksins kom Sif. Ég held að Sigtryggur hafi verið farinn að halda að þetta væri einhvers konar ævintýrapersóna. Allt það sem átti að gerast "þegar Sif kemur". Þegar Sif kemur. Fyrir honum hlýtur þetta að hafa verið eins og hvert annað orðtak yfir það að ætla að gera eitthvað seinna. En svo kom hún! og Kristborg snérist í kringum sjálfa sig af kæti. Og ég var í góðu skapi í óvenju langan tíma samfleytt! og skar niður ávexti og smurði brauð handa stelpunum þegar það átti við. Gaman.





föstudagur, júlí 09, 2004

Ég svæfði Línu Langsokk í gærkvöldi. Lína hins vegar svæfði Tomma með því að knúsa hann segja “svona svona” og segja honum að hætta að gráta.
Lína er búin að vera ein af fjölskyldunni nú um nokkurt skeið og ég verð að segja að mér líkar það bara vel. Þetta hefur í för með sér heilmikla tilbreytingu, ég gegni til dæmis oft nafninu pabbi þar sem Lína á jú enga mömmu og aðrir fjölskyldumeðlimir fá að gegna hlutverkum Herra Níelsar, Tomma og Önnu. Og svo eru peningakassar Línu bókstaflega út um allt hús. Sem þýðir mikið ríkidæmi. Ágúst stakk upp á að ég kynnti son minn fyrir Emil, fannst það líklega betri fyrirmynd en Lína a.m.k. hvað kyn varðar en ég kann alveg ágætlega við Línu. Lifi Lína!

miðvikudagur, júní 30, 2004

Loksins frí!
Við hjónin erum búin að vera eins og hauslausar hænur að pakka niður í kvöld. Börnin ralla hálfvitlaus um og spóla rúllar í tækinu til að halda þeim rólegum. Enginn tími til að segja þeim að fara að sofa.
Hjólin fóru um borð í Jaxlinn í dag (mmmmmmm; hafnarstemming, sjávarlykt . .) og við sjáum þau aftur á Þingeyri á föstudag. Ragnar í Doddabúð passar upp á þau þangað til við sækjum þau.
Við ætlum okkur að hjóla út Dýrafjörðinn og inn í Arnarfjörð með fjöldamörgum stoppum á leiðinni. Jibbíjæ.
Dóla okkur þetta á 4-5 dögum.
Trallalallala . . .

mánudagur, júní 28, 2004

Ósigur kosninganna hlýtur að vera Sjálfstæðisflokksins sem ekki tókst að smala fleirum til að skila auðu.

Annað: Væri ég áskrifandi að Morgunblaðinu segði ég því upp núna.

Fréttamat blaðsins er fyrir neðan allar hellur. Fréttir eru teknar gagnrýnislaust upp úr amerískri hægripressu. Lítið á forsíðuna. Ef það er ekki verið að tyggja einhver slagorð upp úr Bush sem hann hefur látið falla í kosningabaráttu sinni gegn Kerry er t.d. verið að leyfa Davíð að segja frá því hversu kærkomið símtal hann átti við sama Bush (vældi í honum um að flytja ekki herinn burt sem er aumingjaskapur í mínum huga) í heilar 7 mínútur (auk þess sem sagt var frá þessu á þremur öðrum stöðum í blaðinu!). Og nú um daginn stórfrétt á forsíðu um hversu mikilvægt það var honum (Davíð) að fá að fylgja Ronald Reagan, þeim glæpamanni, til grafar. Og hversu mikill aðdáandi hann væri. Afsakið á meðan ég æli.

Ég man of vel eftir því þegar ég las opinmynnt um persaflóastríðið í Mogganum.
Fréttamat þar á bæ var á þá leið að ég ætti ekki hafa neinar áhyggjur af (eða áhuga á) öðru í sambandi við þetta stríð en hversu langdrægar eldflaugar Bandaríkjamanna væru og hvers konar tækni þær væru búnar. Sett fram á myndrænan hátt, eins og skrýtlurnar.

Á kosningadag hvatti blaðið fólk til að skila auðu á forsíðunni, eftir að hafa haft um það stór orð í leiðurum undanfarið hvílíkt stríðsástand ríkti nú í þjóðfélaginu með þennan agalega forseta.
Og svo fullyrða Davíð og Hannes H. háum rómi í útvarpinu að enginn áróður hafi farið fram. Hvílíkir endemis hálfvitar. Þessir menn sem enn halda að orðið vinstri sé svo hræðilegt að við séum til í að gera hvað sem er til að þurfa ekki að heyra það aftur.
Og að orðið lýðræði þýði að ríkisstjórnin ein ráði og hinir segi já.

Fjölmiðlalögin eru meingölluð og það heitir virkt lýðræði að þjóðin kjósi um þau en ekki atlaga að lýðræðinu.

Baugur færir mér ágætis fréttablað ókeypis sem flytur yfirvegaðar og vandaðar fréttir, svona yfirleitt, og satt að segja þarf ekki eins dökk gleraugu við lestur þess eins og Moggans. Og það þolir Davíð ekki. En ég gleðst.

miðvikudagur, júní 09, 2004

Dag eftir dag skín sól.
Í morgun langaði mig til að:
fara í pils,
fara ekki í sokka,
vera heima og
vita ekki hvað klukkan er.
Svo langaði mig til að allir vinir mínir ættu heima í húsinum í kring, við myndum eyða deginum úti á grasi og spila fótbolta og aðra leiki og hangsa inni á milli.
En í staðinn fór ég bara í vinnuna eins og góðum smáborgara sæmir.

sunnudagur, maí 30, 2004

Berufirðingur: Sá er telur gildi þagnarinnar framar öðru. Lætur fátt uppi um sína hagi, ferðir eða ætlan og svarar í hálfkveðnum vísum, útúrsnúningi eða út í hött ef spurður beint. Getur verið erfiður í samskiptum og þrjóskur. “Það er dálítill Berufirðingur í honum”, hann á það til að láta lítið uppi og þrjóskast við.

Annars var sveitaferðin góð: sjá myndir. Elísa bættist í hópinn á öðrum degi sem ekki spillti gleðinni. Sauðburður var langt kominn og nóg að gera við að marka, sleppa út, gefa pela, og klappa lömbunum og knúsa. Síðustu ærnar létu bíða eftir sínum lömbum en þegar þau komu skein sólin úr andliti Kristborgar. Gengum upp í fjall og týndum gimsteina sem raðað var upp í útilistaverk. Þar fyllti blóðbergsilmurinn vitin. Í bókstaflegri merkingu. Stikluðum á steinum yfir læki. Gengum inn fyrir klettana til gemlinganna og hrútanna. Lögðumst þar í lautir og fundum fjólur og stör í blóma. Hoppuðum yfir læk og fældum spóa af hreiðri, æ, æ, flýttum okkur burt. Fylgdumst með lóum, spóa, kríum, og fýl í klettum. Fórum niður í fjöru og settum hey í hreiðurstæði fyrir æðarfuglinn. Týndum skeljar, kuðunga, krabba og fleiri steina. Fleyttum kerlingar. Meiri listsköpun. Skoðuðum lambagras, músareyra og ljónslappa. Hrossagaukurinn lét stöðugt í sér heyra. Gamla rafstöðin hefur fengið nafnið Fossatún og þar er gaman í búleik og drullukökubakstri. Fórum þrisvar í fjósið til Önnu og hjálpuðum til við gjöf og fylgdumst með mjöltum. Mikið var það gaman. Kálfarnir eru svo sætir! En ansi baulaði Fjóla hátt. Spyrjið bara Sigtrygg. Haninn var flottur og lét ekki miklu lægra en Fjóla. Sigtryggur getur líka sagt frá því. Anna gaf Kristborgu hænuegg og ekki nóg með það heldur voru þau óþvegin! Betra gerist það ekki. Og mjólkin er best beint úr kúnum. En ansi var nú erfitt að kveðja Gibbu litlu þegar ævintýrinu lauk. Þá voru felld heit tár og loforð tekin af Sigga frænda að sjá nú vel um hana. Og ekki tekið í mál að fara í bað áður en haldi var heim á leið. Sveitailmurinn skyldi tekinn með. Mmmmmm.

sunnudagur, maí 16, 2004

OK.
Bækur sem liggja eins og hráviður um húsið og bókstaflega æpa á mig að verða lesnar eru:

Spútnik-Ástin e. Haruki Murakami
39 þrep til glötunar e. Eiríkur Guðmundsson
Ég er ekki hræddur e. Niccolò Ammaniti
Angels and Demons e. Dan Brown
Pobby and Dingan e. Ben Rice
Í upphafi var morðið e. Árna Þórarinsson og Pál Kristinn Pálsson

Úffff.
Allar þessar bækur hefur fólk lánað mér eða gefið alveg óumbeðið og af hreinum elskulegheitum. Svona er ég líklega búin að útmála mig sem mikinn menningarvita (lesist: snobb).
Fyrst þarf ég samt að ljúka við Sálminn um blómið sem ég byrjaði á í febrúar (vonandi á allra næstu dögum því þetta er að verða dálítið neyðarlegt). Á ég að sendi fólki tölvupóst og láta það vita hvar bókin þeirra er í röðinni hjá mér? Og svo regluleg skilaboð um breytta stöðu þegar bókin mjakast upp listann. Svona svo það haldi ekki að ég sé hreinlega búin að stela bókunum þeirra.
Æ mig auma.
Allt af því að ég talaði svo mikið um hvað Da Vinci lykillinn væri skemmtileg bók og hvað fólk væri miklir hálfvitar að vera ekki búið að lesa hana. Talaði líklega svo mikið um hana að fólk áleit mig vera að tala um tugi mismunandi bóka. Það hlustar greinilega ekki betur á mig en svo að það veit ekki stundinni lengur um hvað ég er að tala. Og réttir mér svo bók, svona til að þagga niður í mér.

miðvikudagur, maí 12, 2004

mánudagur, maí 10, 2004

Ekki láta Kraftwerks tónleika framhjá ykkur fara!! Ég var opinmynnt og með gæsahúð allan tímann. Alger unaður og eitt það besta sem ég hef séð. Ég færi strax aftur á morgun ef ég ætti þess kost. Ég er orðinn einlægur aðdáandi þessarar hljómsveitar og við Kristborg lágum lengi uppi sófa og nutum Robota og Autobahn ásamt fleiru um helgina, og yljuðum okkur jafnframt við endurminningar frá hrekkjavökunni 2003. Þá var Kristborg einmitt klædd upp sem vélmenni og úr hátölurum á hjálminum hennar hljómaði Kraftwerk, sjá: Kristborg vélmenni
Hnúturinn í maganum á mér er orðinn svo stór að ég er farin að íhuga að fara til læknis og fá pillur. Ég gæti líka reynt að stunda innhverfa íhugun. Ég veit bara að ég verð aldrei góð í því. Það má reyna að fara í fréttabindindi, það er bara svo erfitt, ég þyrfti að ganga um með bundið fyrir augun og tappa í eyrunum. Og svo finnst mér asnalegt að láta bara eins og ekkert sé og hlutirnir komi manni ekki við. Ég vona bara að þessar myndasýningar af niðurlægingu fanganna í Írak verði til þess að glæpamennirnir sem stjórna BNA fari frá. Ég get ekki einu sinni nefnt þá á nafn. Og svo mega þessir hrokagikkir sem ríkja á þessu skeri fylgja á eftir. Við þörfnumst byltingar!

fimmtudagur, apríl 22, 2004

Fyrsti dagur sumarsins var yndislegur. Þótt þetta verði hlýjasti dagur sumarsins þá er það allt í lagi. Veturinn má koma aftur á morgun mín vegna. Já þessi dýrmætu og óborganlegu sumur. Ég var búin að gleyma. Og nú er ég svo þreytt eftir alla útiveruna í dag að ég verð að fara að sofa. Gleðilegt sumar!

mánudagur, mars 08, 2004

Heilinn í mér er með viðstöðulausa skyggnusýningu þar sem sýndar eru myndir frá Kaliforníu. Þegar ég bjó þar úti var sama upp á teningnum nema hvað myndirnar voru frá Íslandi. Merkilegt hvað maður er mikið með hugann við það sem er utan seilingar og haldinn mikilli þrá eftir því. Alveg skil ég það mæta vel að íslenskir listamenn búsettir erlendis fái meiri innblástur héðan en hinir sem búa hér, sjáið Ólaf Elíasson. Alla vega ef heilinn í þeim virkar eitthvað svipað mínum. Kannski er þetta enn eitt vitni þess að fjarlægðin geri fjöllin blá, en það er ekki rétta orðalagið held ég. Fremur að fjarlægðin sé sigti sem síar frá það sem manni þykir merkilegast, vænst um o.s.frv. og skilur kannski kjarnann frá hisminu. Fjarlægðin leyfir huganum líka að móta viðfangsefnið að vild þar sem hin rétta mynd þess er ekki fyrir framan mann til leiðréttingar.
Eins og að líkum lætur er þessi myndasýning í höfðinu á mér mjög falleg og gleðileg í alla staði. Það væri virkilega gaman að geta boðið öðrum að koma og sjá en það er víst ekki hægt. Ekki frekar en hægt er að deila hugmyndum sínum fullkomlega. Því þetta eru ekki bara myndir, þeim fylgja tilfinningar og upplifanir. Og stundum er þetta myndskreytt tilfinning þar sem myndin er í aukahlutverki, aðeins til frekari útskýringar. Svona eins og sér útgáfa af bók, myndskreytt. Þessi myndasýning hefði því lítið að segja við aðra en mig. Datt í hug að segja ykkur frá því samt.
Talandi um að koma hugmyndum og líðan manns á framfæri við aðra. Mikið getur það verið erfitt. Orðin eru eins og léleg og bitlaus verkfæri, þau ná aldrei að koma skilningi fullkomlega til skila, og reyndar yfirleitt aldrei almennilega. Allir eru jú einir í sínum hugmynda- og tilfinningaheimi. Og svo rembumst við allt lífið við að tengjast öðru fólki. Kristborg er búin að fatta þetta. Með hennar orðum: “Hvernig stendur á því að ég er ég en allir hinir eru þú, þú, þú. Það er svo margt að gerast í hausnum á mér en það veit það enginn og ég veit ekki hvað er að gerast í höfðinu á öllum hinum”. Ekki lengi að skilja heiminn, sú stutta.

föstudagur, mars 05, 2004

Nú er ég uppfull af sveitarómantík, ég fór nefnilega um suðausturland um helgina. Tilefnið var reyndar ekki gleðilegt því ég fór í jarðarför eiginmanns föðursystur minnar. En mikið var samt gaman að koma austur. Hitta alla þessa ættingja mína, unga sem aldna og fara um þetta stórbrotna landslag. Bæjarstæðið á Höfn er alveg makalaust fallegt, með skriðjöklana fallandi í sæ og há fjöllin rísandi yfir.
Ferðin austur var að mörgu leyti súrrealísk og gott efni í bíómynd. Pabbi ætlaði greinilega ekki að láta taka sig fyrir of hraðan akstur og hafði grafið upp gamlan radarvara. Hann var ekki nákvæmari en svo að hann pípti stöðugt, bara mishratt, og aldrei mættum við lögreglu. Ekki að það hefði gert til því gamli ók á löglegum hraða alla leiðina. Sem betur fer segi ég, en hvað var maðurinn þá að gera með radarvara? Þetta var nátttúrlega að gera alla vitlausa, nema pabba sem umlaði bara eitthvað óskiljanlegt þegar við minntumst á þetta. Gerðum óteljandi stopp á leiðinni, kaffi hér og pulsa þar og svo er alveg nauðsynlegt að gefa sér góðan tíma til að skoða varninginn í kaupfélaginu. Ok, ég veit að þetta heitir ekki kaupfélag lengur en það kemur í sama stað niður.
Alla vega, við komumst heil og á höldnu á leiðarenda og nutum sveitasælunnnar þar sem fjöllin er nálæg, himinninn hár og börnin frjáls. Yndislegt!
Sagði Elsa sveitastelpa.

föstudagur, febrúar 20, 2004

Tilvonandi fjárfestar hafa verið í heimsókn í dag og allir verið eins og þræddir upp á band að sýna sitt besta andlit. Ekki laust við spennufall núna þegar það mesta er um garð gengið. Og þá er hægt að fara að hugsa til helgarinnar. Það fer hver að verða síðastur að blóta Þorra og það ætlum við að gera í kvöld hjá mömmu og pabba. Á morgun koma svo Obba, Óskar, María og Gísli í mat og drykk, og við öll barnlaus. Heldur betur má búast við fjöri. Bara að þetta fari ekki úr böndunum. Nei, nei, ætli við höldum okkur ekki á jörðinni og í sokkunum og til hliðar við borðin (hvorki ofan á þeim né undir) og skipuleggjum Vestfjarðaferðina betur.
Svo býðst okkur að taka þátt í þessari ferð: Austurströnd Grænlands á góðum afslætti.
Er hægt að sitja hjá þótt æðsti draumurinn sé að fara að leggja fyrir einstaka krónu svo sá dagur renni einhvern tíma upp að ég geti keypt mér húskofa! Andsk. hafi það.
Svo er bolludagur á mánudag svo við vitum öll hvað við gerum á sunnudag, ekki satt. Jú tökum forskot á bolludagssæluna. Mmmmmm.

föstudagur, febrúar 13, 2004

Var ég annars búin að minnast á það hvað hann Sigtryggur er sætur?
Komin sumarblíða og í mínum gullfiskaheila hefur veðrið verið svona svo lengi sem ég man og allar líkur á að það verði svona áfram. Allir úti á peysunni og hægt að fara út og sparka bolta eftir vinnu. Einhvern tíma fyrr í vetur rámar mig í að hafi verið kafa snjór og ekki hægt að hreyfa sig úti nema á snjóþrúgum og/eða gönguskíðum með börnin á bakinu vafin í selskinn. Eða eitthvað í þá áttina. Eitthvað rámar mig líka í skíðaferðir en nú verða skíðin lögð á hilluna og tekið til við sumarleiki. En svona í alvöru talað þá er ósköp ljúft að það sé svona hlýtt í veðri en ég fíla líka snjóinn í botn, og þá er líka svo bjart og fallegt. Allt hefur víst sína kosti og galla svo ég gerist nú svolítið spakleg. Ég gekk niður Laugaveginn í dag sem alltaf virkar stórvel mér til heilsu- og sálubótar. Þar er mannlífið skrautlegt og margt hnýsilegt í búðargluggum. Fann þar íþróttabuxur á spottprís sem ég hyggst nýta til þrautar í leikfimiæfingum vorsins því ekki er ráð nema í tíma sé tekið (meiri spaklegheit) og við hyggjum á hjólreiðaferð um Vestfirði í sumar. Eins gott að fara að koma sér í form. Ég er sem sagt farin að hugsa með tilhlökkun til sumarsins sem er þegar orðið allt of stutt miðað við allt það sem mig langar að gera. Og Þorri ekki einu sinni liðinn.
Segjum það í bili.
Elsa

miðvikudagur, febrúar 04, 2004

Ég náði í sjónvarpið hans bróður míns skakkamanage upp í Breiðholt í gærkvöldi þar sem hann dvelur nú í Þýskalandi sér til heilsubótar og upplyftingar. Nú er að sjá hvort við höndlum þennan nýja heimilisvin. Síðustu fimm árin í BNA var þetta tæki einungis notað til að glápa á barnatímann, og myndbandsspólur stöku sinnum. Sjáum til hvort nú verður breyting á. Maður er náttúrlega algjört viðundur þegar maður fylgist ekki með Survivor og öllu hinu sem ég kann vart að nefna en það sem plagar mig stöðugt er: Hvað varð af öllum þeim tíma sem ég varði ekki í sjónvarpsgláp! Spurningin "Hvað geriði eiginlega á kvöldin?" nagar mig nefnilega alveg jafn mikið og alla þá sem eru alltaf að spyrja mig. Það ættu að liggja eftir mig bókmenntaverk, handverk, tónverk eða a.m.k. EITTHVAÐ! Einnig vil ég gjarnan fá að vita hvað varð af öllu því fé sem ég eyddi ekki í sígarettur. Þar að auki hef ég ekki sofið út lengur en til níu (hámark) um helgar síðastliðin 7,6 ár. Hvað gerði ég við alla þessa morgna? Lífið er fullt af svona dæmum sem ganga einfaldlega ekki upp. Mér reiknast til að ég eigi inni fúlgur fjár og ómældan tíma sem ekki hefur verið notaður í neitt þarft. Ég vildi að ég vissi við hvern ég á að tala til að taka þetta út. Kannski rennur upp fyrir mér ljós ef ég prófa að stunda sjónvarpið, taka upp reykingar og sofa til hádegis. Það gæti verið þess virði að prófa það.
Þá er enn ein “sumar”bústaðarferðin að baki og sem fyrr var veðrið heiðskírt, sólin björt og fönnin tindrandi. Við rákum músa- og hundaslóðir, gerðum snjólistaverk - og fórum í pottinn að sjálfsögðu. Feðginin skáru harðfennið í bita og hlóðu veglegt snjóhús upp á hæð með útsýni til allra átta. Lukum við Harry Potter bók 2, taka tvö og komumst langt inn í bók 3, einnig taka 2. Þessar bækur eru miklu skemmtilegri í annað sinn verð ég segja, maður nýtur smáatriðanna betur og skilur vísbendingarnar og fléttuna betur. Við ruglumst þó óneitanlega í ríminu öðru hverju og þurfum að minna okkur á að sumt af því sem við vitum (úr seinni bókunum) veit Harry litli ekki. Í þetta sinn höfum við forskot.
Jæja, “takka mig” a la Sigtryggur.

miðvikudagur, janúar 28, 2004

Jæja, í landi hinna frjálsu og hins frjálsa talanda hefur CBS sjónvarpsstöðin neitað að sjónvarpa auglýsingu frá félagasamtökunum MoveOn.org. Auglýsingin er gagnrýni á Bush, en hún er eins saklaus og hugsast getur. Samt of "controversial" fyrir CBS. Skoðið www.bushin30seconds.org, auglýsingin sem um ræðir er sú fyrsta í röðinni. Ég er svo hneyksluð að ég næ ekki upp í nef mér.

fimmtudagur, janúar 22, 2004

Varið ykkur því ég er:



Svei mér þá ef það er ekki svipur með okkur. Þetta er hræðilegt.
Mér fannst þetta reyndar svo spreng hlægilegt að ég reyndi fimm sinnum heima að fá Hitler aftur til að sýna Þráni en fékk þá alltaf þennan:



Er ég gott dæmi um klofinn persónuleika?
Svo reyndi ég að vera alveg ömurleg manneskja og fékk Saddam Hussein. Þetta er nú meira bullið. En samt, gaman að þessu.

Svo er hér nokkuð skondið feministapróf, hversu herská(r) feministi ertu?


I'm getting there. I don't suck, but I've got a ways to go.


miðvikudagur, janúar 21, 2004

Við mæðgur reyndum að fara á skíði um helgina. Á laugardaginn fylgdist ég grannt með ástandinu í Bláfjöllum á vefsíðunni og þegar þau sögðust ætla að opna klukkan 11 brunuðum við af stað. Árangurinn var sá að við náðum upp eftir rétt í tæka tíð til að sjá þau setja upp LOKAÐ skilti í miðasölulúguna. Of hvasst í hlíðunum til að keyra lyftur. Barnalyftan var samt í gangi en þar sem engin skíði voru með í för dugði það skammt, við ætluðum að leigja skíði. Þetta var nú samt bara skemmtilegur bíltúr og á leiðinni til baka ákváðum við að fara bara á skauta í staðinn. Þegar við vorum búin að fá nóg af því fórum við heim og náðum í strákana og stefndum í sund. Komum við á Gerðarsafni í leiðinni og skoðuðum sýningu á verkum norrænna nútímalistamanna, skratti skemmtileg sýning, og fengum okkur svo kökur og kaffi og þess háttar, eins og hverjum og einum þóknaðist. Í sundi hittum við Venna kallinn með syni sína tvo og vin þeirra eins og til var ætlast. Eftir sundferðina voru allir endurnærðir og glaðir. Ég fæ kikk út úr svona degi sem hefur pakkfulla skemmtidagskrá. Þarf helst að hafa annan helgardaginn svona, svo eirðarleysið nái ekki tökum á mér. Líklega er ég svona óþroskuð enn, hvað ætli ég þurfi að endurfæðast oft til að ná þeirri andlegri yfirvegun að öðlast eilíft líf?
Þegar ég lýsti deginum fyrir konu í vinnunni á mánudegi spurði hún undrandi hvort Kristborgu hefði virkilega þótt gaman að fara á safnið. Og ég sagði með sanni að svo hefði verið og þegar ég hugsa betur um það þá er það alveg rétt sem Sibbi sagði einhvern tíma, að börn eru fordómalaus og til í að skoða hvað sem er með opnum huga. Og svo forpokumst við þegar við eldumst.

fimmtudagur, janúar 08, 2004

Kristborg fékk tvær vinkonur í heimsókn eftir skóla í dag. Það gekk á með hlátursköstum og vitleysisgangi eins og gengur og þótt ég léti þetta fara í taugarnar á mér svona yfirleitt og reyndi að taka sem minnst eftir þessu gladdi það mitt þjóðlega hjarta þegar grínið var svona:

"Giljagaur var annar
stubburinn sá"

Og svo runnu þær undir borð af hlátri.

Svo var tekin önnur útgáfa af útúrsnúningi úr sama kvæði.

Skyldi Jóhannes hafa snúið sér við í gröfinni?

Ég gladdist hins vegar yfir því hversu þjált kvæðið var þeim í munni, því það er ekki hægt að snúa svona út úr nema kunna það aftur á bak og áfram.

mánudagur, janúar 05, 2004

Við fórum á svaka skemmtilegt jólaball um daginn. Aðalatriðið var að sjálfsögðu jólasveinninn og þegar hann er góður jafnast hann á við besta uppistand. Skemmtilegir jólasveinar eru nefnilega með því skemmtilegra sem ég þekki. Það er þessi einfaldi og góðlegi bjánahúmor sem kemur mér til að hlæja þar til ég græt. Það gerðist til dæmis síðast á jólatónleikunum í Salnum þar sem annar frábær jólasveinn sniglaðist um sviðið með ýmis konar látbragð og hafði sig lítillega en kostulega í frammi á milli atriða. Börnin hlógu hjartanlega sömuleiðis nema Sigtryggur sem var yfir sig hræddur við kauða. Við tvö fylgdumst því með úr fjarlægð en það var frábært að sjá hvernig hann vann á hræðslunni þegar Sveinninn tók að útdeila sælgæti eftir að hafa árangurslaust auglýst eftir dósaupptakara til að geta tekið um dós af grænum Ora baunum “því þar í væri nóg handa öllum”. (Þið sjáið að það þarf ósköp lítið til að gleðja mína húmorskirtla). Nema hvað, drengurinn hann Sigtryggur lét sig hafa það að standa í röð með systur sinni til að fá góðgætið afhent en var “stinnur sem tré” af hræðslu svo hún þurfti að draga hann áfram. Sjálf er hún á þeim aldrinum að vera farin að draga tilvist jólasveinsins í efa þrátt fyrir að jafn frábær frammistaða og við urðum vitni að þarna færi okkur öllum heim sanninn um þeir séu raunverulegir! Hún er líka á þeim aldrinum að þótt hún gengi prúðmannlega í kringum jólatréð og syngi hástöfum voru allir textar úr hennar munni útúrsnúningar á þessa leið:

"Upp á stól stendur mín amma
níu nóttum fyrir jól þá fer ég að gjamma".