miðvikudagur, janúar 28, 2004

Jæja, í landi hinna frjálsu og hins frjálsa talanda hefur CBS sjónvarpsstöðin neitað að sjónvarpa auglýsingu frá félagasamtökunum MoveOn.org. Auglýsingin er gagnrýni á Bush, en hún er eins saklaus og hugsast getur. Samt of "controversial" fyrir CBS. Skoðið www.bushin30seconds.org, auglýsingin sem um ræðir er sú fyrsta í röðinni. Ég er svo hneyksluð að ég næ ekki upp í nef mér.

fimmtudagur, janúar 22, 2004

Varið ykkur því ég er:



Svei mér þá ef það er ekki svipur með okkur. Þetta er hræðilegt.
Mér fannst þetta reyndar svo spreng hlægilegt að ég reyndi fimm sinnum heima að fá Hitler aftur til að sýna Þráni en fékk þá alltaf þennan:



Er ég gott dæmi um klofinn persónuleika?
Svo reyndi ég að vera alveg ömurleg manneskja og fékk Saddam Hussein. Þetta er nú meira bullið. En samt, gaman að þessu.

Svo er hér nokkuð skondið feministapróf, hversu herská(r) feministi ertu?


I'm getting there. I don't suck, but I've got a ways to go.


miðvikudagur, janúar 21, 2004

Við mæðgur reyndum að fara á skíði um helgina. Á laugardaginn fylgdist ég grannt með ástandinu í Bláfjöllum á vefsíðunni og þegar þau sögðust ætla að opna klukkan 11 brunuðum við af stað. Árangurinn var sá að við náðum upp eftir rétt í tæka tíð til að sjá þau setja upp LOKAÐ skilti í miðasölulúguna. Of hvasst í hlíðunum til að keyra lyftur. Barnalyftan var samt í gangi en þar sem engin skíði voru með í för dugði það skammt, við ætluðum að leigja skíði. Þetta var nú samt bara skemmtilegur bíltúr og á leiðinni til baka ákváðum við að fara bara á skauta í staðinn. Þegar við vorum búin að fá nóg af því fórum við heim og náðum í strákana og stefndum í sund. Komum við á Gerðarsafni í leiðinni og skoðuðum sýningu á verkum norrænna nútímalistamanna, skratti skemmtileg sýning, og fengum okkur svo kökur og kaffi og þess háttar, eins og hverjum og einum þóknaðist. Í sundi hittum við Venna kallinn með syni sína tvo og vin þeirra eins og til var ætlast. Eftir sundferðina voru allir endurnærðir og glaðir. Ég fæ kikk út úr svona degi sem hefur pakkfulla skemmtidagskrá. Þarf helst að hafa annan helgardaginn svona, svo eirðarleysið nái ekki tökum á mér. Líklega er ég svona óþroskuð enn, hvað ætli ég þurfi að endurfæðast oft til að ná þeirri andlegri yfirvegun að öðlast eilíft líf?
Þegar ég lýsti deginum fyrir konu í vinnunni á mánudegi spurði hún undrandi hvort Kristborgu hefði virkilega þótt gaman að fara á safnið. Og ég sagði með sanni að svo hefði verið og þegar ég hugsa betur um það þá er það alveg rétt sem Sibbi sagði einhvern tíma, að börn eru fordómalaus og til í að skoða hvað sem er með opnum huga. Og svo forpokumst við þegar við eldumst.

fimmtudagur, janúar 08, 2004

Kristborg fékk tvær vinkonur í heimsókn eftir skóla í dag. Það gekk á með hlátursköstum og vitleysisgangi eins og gengur og þótt ég léti þetta fara í taugarnar á mér svona yfirleitt og reyndi að taka sem minnst eftir þessu gladdi það mitt þjóðlega hjarta þegar grínið var svona:

"Giljagaur var annar
stubburinn sá"

Og svo runnu þær undir borð af hlátri.

Svo var tekin önnur útgáfa af útúrsnúningi úr sama kvæði.

Skyldi Jóhannes hafa snúið sér við í gröfinni?

Ég gladdist hins vegar yfir því hversu þjált kvæðið var þeim í munni, því það er ekki hægt að snúa svona út úr nema kunna það aftur á bak og áfram.

mánudagur, janúar 05, 2004

Við fórum á svaka skemmtilegt jólaball um daginn. Aðalatriðið var að sjálfsögðu jólasveinninn og þegar hann er góður jafnast hann á við besta uppistand. Skemmtilegir jólasveinar eru nefnilega með því skemmtilegra sem ég þekki. Það er þessi einfaldi og góðlegi bjánahúmor sem kemur mér til að hlæja þar til ég græt. Það gerðist til dæmis síðast á jólatónleikunum í Salnum þar sem annar frábær jólasveinn sniglaðist um sviðið með ýmis konar látbragð og hafði sig lítillega en kostulega í frammi á milli atriða. Börnin hlógu hjartanlega sömuleiðis nema Sigtryggur sem var yfir sig hræddur við kauða. Við tvö fylgdumst því með úr fjarlægð en það var frábært að sjá hvernig hann vann á hræðslunni þegar Sveinninn tók að útdeila sælgæti eftir að hafa árangurslaust auglýst eftir dósaupptakara til að geta tekið um dós af grænum Ora baunum “því þar í væri nóg handa öllum”. (Þið sjáið að það þarf ósköp lítið til að gleðja mína húmorskirtla). Nema hvað, drengurinn hann Sigtryggur lét sig hafa það að standa í röð með systur sinni til að fá góðgætið afhent en var “stinnur sem tré” af hræðslu svo hún þurfti að draga hann áfram. Sjálf er hún á þeim aldrinum að vera farin að draga tilvist jólasveinsins í efa þrátt fyrir að jafn frábær frammistaða og við urðum vitni að þarna færi okkur öllum heim sanninn um þeir séu raunverulegir! Hún er líka á þeim aldrinum að þótt hún gengi prúðmannlega í kringum jólatréð og syngi hástöfum voru allir textar úr hennar munni útúrsnúningar á þessa leið:

"Upp á stól stendur mín amma
níu nóttum fyrir jól þá fer ég að gjamma".