föstudagur, febrúar 20, 2004

Tilvonandi fjárfestar hafa verið í heimsókn í dag og allir verið eins og þræddir upp á band að sýna sitt besta andlit. Ekki laust við spennufall núna þegar það mesta er um garð gengið. Og þá er hægt að fara að hugsa til helgarinnar. Það fer hver að verða síðastur að blóta Þorra og það ætlum við að gera í kvöld hjá mömmu og pabba. Á morgun koma svo Obba, Óskar, María og Gísli í mat og drykk, og við öll barnlaus. Heldur betur má búast við fjöri. Bara að þetta fari ekki úr böndunum. Nei, nei, ætli við höldum okkur ekki á jörðinni og í sokkunum og til hliðar við borðin (hvorki ofan á þeim né undir) og skipuleggjum Vestfjarðaferðina betur.
Svo býðst okkur að taka þátt í þessari ferð: Austurströnd Grænlands á góðum afslætti.
Er hægt að sitja hjá þótt æðsti draumurinn sé að fara að leggja fyrir einstaka krónu svo sá dagur renni einhvern tíma upp að ég geti keypt mér húskofa! Andsk. hafi það.
Svo er bolludagur á mánudag svo við vitum öll hvað við gerum á sunnudag, ekki satt. Jú tökum forskot á bolludagssæluna. Mmmmmm.

föstudagur, febrúar 13, 2004

Var ég annars búin að minnast á það hvað hann Sigtryggur er sætur?
Komin sumarblíða og í mínum gullfiskaheila hefur veðrið verið svona svo lengi sem ég man og allar líkur á að það verði svona áfram. Allir úti á peysunni og hægt að fara út og sparka bolta eftir vinnu. Einhvern tíma fyrr í vetur rámar mig í að hafi verið kafa snjór og ekki hægt að hreyfa sig úti nema á snjóþrúgum og/eða gönguskíðum með börnin á bakinu vafin í selskinn. Eða eitthvað í þá áttina. Eitthvað rámar mig líka í skíðaferðir en nú verða skíðin lögð á hilluna og tekið til við sumarleiki. En svona í alvöru talað þá er ósköp ljúft að það sé svona hlýtt í veðri en ég fíla líka snjóinn í botn, og þá er líka svo bjart og fallegt. Allt hefur víst sína kosti og galla svo ég gerist nú svolítið spakleg. Ég gekk niður Laugaveginn í dag sem alltaf virkar stórvel mér til heilsu- og sálubótar. Þar er mannlífið skrautlegt og margt hnýsilegt í búðargluggum. Fann þar íþróttabuxur á spottprís sem ég hyggst nýta til þrautar í leikfimiæfingum vorsins því ekki er ráð nema í tíma sé tekið (meiri spaklegheit) og við hyggjum á hjólreiðaferð um Vestfirði í sumar. Eins gott að fara að koma sér í form. Ég er sem sagt farin að hugsa með tilhlökkun til sumarsins sem er þegar orðið allt of stutt miðað við allt það sem mig langar að gera. Og Þorri ekki einu sinni liðinn.
Segjum það í bili.
Elsa

miðvikudagur, febrúar 04, 2004

Ég náði í sjónvarpið hans bróður míns skakkamanage upp í Breiðholt í gærkvöldi þar sem hann dvelur nú í Þýskalandi sér til heilsubótar og upplyftingar. Nú er að sjá hvort við höndlum þennan nýja heimilisvin. Síðustu fimm árin í BNA var þetta tæki einungis notað til að glápa á barnatímann, og myndbandsspólur stöku sinnum. Sjáum til hvort nú verður breyting á. Maður er náttúrlega algjört viðundur þegar maður fylgist ekki með Survivor og öllu hinu sem ég kann vart að nefna en það sem plagar mig stöðugt er: Hvað varð af öllum þeim tíma sem ég varði ekki í sjónvarpsgláp! Spurningin "Hvað geriði eiginlega á kvöldin?" nagar mig nefnilega alveg jafn mikið og alla þá sem eru alltaf að spyrja mig. Það ættu að liggja eftir mig bókmenntaverk, handverk, tónverk eða a.m.k. EITTHVAÐ! Einnig vil ég gjarnan fá að vita hvað varð af öllu því fé sem ég eyddi ekki í sígarettur. Þar að auki hef ég ekki sofið út lengur en til níu (hámark) um helgar síðastliðin 7,6 ár. Hvað gerði ég við alla þessa morgna? Lífið er fullt af svona dæmum sem ganga einfaldlega ekki upp. Mér reiknast til að ég eigi inni fúlgur fjár og ómældan tíma sem ekki hefur verið notaður í neitt þarft. Ég vildi að ég vissi við hvern ég á að tala til að taka þetta út. Kannski rennur upp fyrir mér ljós ef ég prófa að stunda sjónvarpið, taka upp reykingar og sofa til hádegis. Það gæti verið þess virði að prófa það.
Þá er enn ein “sumar”bústaðarferðin að baki og sem fyrr var veðrið heiðskírt, sólin björt og fönnin tindrandi. Við rákum músa- og hundaslóðir, gerðum snjólistaverk - og fórum í pottinn að sjálfsögðu. Feðginin skáru harðfennið í bita og hlóðu veglegt snjóhús upp á hæð með útsýni til allra átta. Lukum við Harry Potter bók 2, taka tvö og komumst langt inn í bók 3, einnig taka 2. Þessar bækur eru miklu skemmtilegri í annað sinn verð ég segja, maður nýtur smáatriðanna betur og skilur vísbendingarnar og fléttuna betur. Við ruglumst þó óneitanlega í ríminu öðru hverju og þurfum að minna okkur á að sumt af því sem við vitum (úr seinni bókunum) veit Harry litli ekki. Í þetta sinn höfum við forskot.
Jæja, “takka mig” a la Sigtryggur.