Heilinn í mér er með viðstöðulausa skyggnusýningu þar sem sýndar eru myndir frá Kaliforníu. Þegar ég bjó þar úti var sama upp á teningnum nema hvað myndirnar voru frá Íslandi. Merkilegt hvað maður er mikið með hugann við það sem er utan seilingar og haldinn mikilli þrá eftir því. Alveg skil ég það mæta vel að íslenskir listamenn búsettir erlendis fái meiri innblástur héðan en hinir sem búa hér, sjáið Ólaf Elíasson. Alla vega ef heilinn í þeim virkar eitthvað svipað mínum. Kannski er þetta enn eitt vitni þess að fjarlægðin geri fjöllin blá, en það er ekki rétta orðalagið held ég. Fremur að fjarlægðin sé sigti sem síar frá það sem manni þykir merkilegast, vænst um o.s.frv. og skilur kannski kjarnann frá hisminu. Fjarlægðin leyfir huganum líka að móta viðfangsefnið að vild þar sem hin rétta mynd þess er ekki fyrir framan mann til leiðréttingar.
Eins og að líkum lætur er þessi myndasýning í höfðinu á mér mjög falleg og gleðileg í alla staði. Það væri virkilega gaman að geta boðið öðrum að koma og sjá en það er víst ekki hægt. Ekki frekar en hægt er að deila hugmyndum sínum fullkomlega. Því þetta eru ekki bara myndir, þeim fylgja tilfinningar og upplifanir. Og stundum er þetta myndskreytt tilfinning þar sem myndin er í aukahlutverki, aðeins til frekari útskýringar. Svona eins og sér útgáfa af bók, myndskreytt. Þessi myndasýning hefði því lítið að segja við aðra en mig. Datt í hug að segja ykkur frá því samt.
Talandi um að koma hugmyndum og líðan manns á framfæri við aðra. Mikið getur það verið erfitt. Orðin eru eins og léleg og bitlaus verkfæri, þau ná aldrei að koma skilningi fullkomlega til skila, og reyndar yfirleitt aldrei almennilega. Allir eru jú einir í sínum hugmynda- og tilfinningaheimi. Og svo rembumst við allt lífið við að tengjast öðru fólki. Kristborg er búin að fatta þetta. Með hennar orðum: “Hvernig stendur á því að ég er ég en allir hinir eru þú, þú, þú. Það er svo margt að gerast í hausnum á mér en það veit það enginn og ég veit ekki hvað er að gerast í höfðinu á öllum hinum”. Ekki lengi að skilja heiminn, sú stutta.
föstudagur, mars 05, 2004
Nú er ég uppfull af sveitarómantík, ég fór nefnilega um suðausturland um helgina. Tilefnið var reyndar ekki gleðilegt því ég fór í jarðarför eiginmanns föðursystur minnar. En mikið var samt gaman að koma austur. Hitta alla þessa ættingja mína, unga sem aldna og fara um þetta stórbrotna landslag. Bæjarstæðið á Höfn er alveg makalaust fallegt, með skriðjöklana fallandi í sæ og há fjöllin rísandi yfir.
Ferðin austur var að mörgu leyti súrrealísk og gott efni í bíómynd. Pabbi ætlaði greinilega ekki að láta taka sig fyrir of hraðan akstur og hafði grafið upp gamlan radarvara. Hann var ekki nákvæmari en svo að hann pípti stöðugt, bara mishratt, og aldrei mættum við lögreglu. Ekki að það hefði gert til því gamli ók á löglegum hraða alla leiðina. Sem betur fer segi ég, en hvað var maðurinn þá að gera með radarvara? Þetta var nátttúrlega að gera alla vitlausa, nema pabba sem umlaði bara eitthvað óskiljanlegt þegar við minntumst á þetta. Gerðum óteljandi stopp á leiðinni, kaffi hér og pulsa þar og svo er alveg nauðsynlegt að gefa sér góðan tíma til að skoða varninginn í kaupfélaginu. Ok, ég veit að þetta heitir ekki kaupfélag lengur en það kemur í sama stað niður.
Alla vega, við komumst heil og á höldnu á leiðarenda og nutum sveitasælunnnar þar sem fjöllin er nálæg, himinninn hár og börnin frjáls. Yndislegt!
Sagði Elsa sveitastelpa.
Ferðin austur var að mörgu leyti súrrealísk og gott efni í bíómynd. Pabbi ætlaði greinilega ekki að láta taka sig fyrir of hraðan akstur og hafði grafið upp gamlan radarvara. Hann var ekki nákvæmari en svo að hann pípti stöðugt, bara mishratt, og aldrei mættum við lögreglu. Ekki að það hefði gert til því gamli ók á löglegum hraða alla leiðina. Sem betur fer segi ég, en hvað var maðurinn þá að gera með radarvara? Þetta var nátttúrlega að gera alla vitlausa, nema pabba sem umlaði bara eitthvað óskiljanlegt þegar við minntumst á þetta. Gerðum óteljandi stopp á leiðinni, kaffi hér og pulsa þar og svo er alveg nauðsynlegt að gefa sér góðan tíma til að skoða varninginn í kaupfélaginu. Ok, ég veit að þetta heitir ekki kaupfélag lengur en það kemur í sama stað niður.
Alla vega, við komumst heil og á höldnu á leiðarenda og nutum sveitasælunnnar þar sem fjöllin er nálæg, himinninn hár og börnin frjáls. Yndislegt!
Sagði Elsa sveitastelpa.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)