sunnudagur, maí 30, 2004

Berufirðingur: Sá er telur gildi þagnarinnar framar öðru. Lætur fátt uppi um sína hagi, ferðir eða ætlan og svarar í hálfkveðnum vísum, útúrsnúningi eða út í hött ef spurður beint. Getur verið erfiður í samskiptum og þrjóskur. “Það er dálítill Berufirðingur í honum”, hann á það til að láta lítið uppi og þrjóskast við.

Annars var sveitaferðin góð: sjá myndir. Elísa bættist í hópinn á öðrum degi sem ekki spillti gleðinni. Sauðburður var langt kominn og nóg að gera við að marka, sleppa út, gefa pela, og klappa lömbunum og knúsa. Síðustu ærnar létu bíða eftir sínum lömbum en þegar þau komu skein sólin úr andliti Kristborgar. Gengum upp í fjall og týndum gimsteina sem raðað var upp í útilistaverk. Þar fyllti blóðbergsilmurinn vitin. Í bókstaflegri merkingu. Stikluðum á steinum yfir læki. Gengum inn fyrir klettana til gemlinganna og hrútanna. Lögðumst þar í lautir og fundum fjólur og stör í blóma. Hoppuðum yfir læk og fældum spóa af hreiðri, æ, æ, flýttum okkur burt. Fylgdumst með lóum, spóa, kríum, og fýl í klettum. Fórum niður í fjöru og settum hey í hreiðurstæði fyrir æðarfuglinn. Týndum skeljar, kuðunga, krabba og fleiri steina. Fleyttum kerlingar. Meiri listsköpun. Skoðuðum lambagras, músareyra og ljónslappa. Hrossagaukurinn lét stöðugt í sér heyra. Gamla rafstöðin hefur fengið nafnið Fossatún og þar er gaman í búleik og drullukökubakstri. Fórum þrisvar í fjósið til Önnu og hjálpuðum til við gjöf og fylgdumst með mjöltum. Mikið var það gaman. Kálfarnir eru svo sætir! En ansi baulaði Fjóla hátt. Spyrjið bara Sigtrygg. Haninn var flottur og lét ekki miklu lægra en Fjóla. Sigtryggur getur líka sagt frá því. Anna gaf Kristborgu hænuegg og ekki nóg með það heldur voru þau óþvegin! Betra gerist það ekki. Og mjólkin er best beint úr kúnum. En ansi var nú erfitt að kveðja Gibbu litlu þegar ævintýrinu lauk. Þá voru felld heit tár og loforð tekin af Sigga frænda að sjá nú vel um hana. Og ekki tekið í mál að fara í bað áður en haldi var heim á leið. Sveitailmurinn skyldi tekinn með. Mmmmmm.

sunnudagur, maí 16, 2004

OK.
Bækur sem liggja eins og hráviður um húsið og bókstaflega æpa á mig að verða lesnar eru:

Spútnik-Ástin e. Haruki Murakami
39 þrep til glötunar e. Eiríkur Guðmundsson
Ég er ekki hræddur e. Niccolò Ammaniti
Angels and Demons e. Dan Brown
Pobby and Dingan e. Ben Rice
Í upphafi var morðið e. Árna Þórarinsson og Pál Kristinn Pálsson

Úffff.
Allar þessar bækur hefur fólk lánað mér eða gefið alveg óumbeðið og af hreinum elskulegheitum. Svona er ég líklega búin að útmála mig sem mikinn menningarvita (lesist: snobb).
Fyrst þarf ég samt að ljúka við Sálminn um blómið sem ég byrjaði á í febrúar (vonandi á allra næstu dögum því þetta er að verða dálítið neyðarlegt). Á ég að sendi fólki tölvupóst og láta það vita hvar bókin þeirra er í röðinni hjá mér? Og svo regluleg skilaboð um breytta stöðu þegar bókin mjakast upp listann. Svona svo það haldi ekki að ég sé hreinlega búin að stela bókunum þeirra.
Æ mig auma.
Allt af því að ég talaði svo mikið um hvað Da Vinci lykillinn væri skemmtileg bók og hvað fólk væri miklir hálfvitar að vera ekki búið að lesa hana. Talaði líklega svo mikið um hana að fólk áleit mig vera að tala um tugi mismunandi bóka. Það hlustar greinilega ekki betur á mig en svo að það veit ekki stundinni lengur um hvað ég er að tala. Og réttir mér svo bók, svona til að þagga niður í mér.

miðvikudagur, maí 12, 2004

mánudagur, maí 10, 2004

Ekki láta Kraftwerks tónleika framhjá ykkur fara!! Ég var opinmynnt og með gæsahúð allan tímann. Alger unaður og eitt það besta sem ég hef séð. Ég færi strax aftur á morgun ef ég ætti þess kost. Ég er orðinn einlægur aðdáandi þessarar hljómsveitar og við Kristborg lágum lengi uppi sófa og nutum Robota og Autobahn ásamt fleiru um helgina, og yljuðum okkur jafnframt við endurminningar frá hrekkjavökunni 2003. Þá var Kristborg einmitt klædd upp sem vélmenni og úr hátölurum á hjálminum hennar hljómaði Kraftwerk, sjá: Kristborg vélmenni
Hnúturinn í maganum á mér er orðinn svo stór að ég er farin að íhuga að fara til læknis og fá pillur. Ég gæti líka reynt að stunda innhverfa íhugun. Ég veit bara að ég verð aldrei góð í því. Það má reyna að fara í fréttabindindi, það er bara svo erfitt, ég þyrfti að ganga um með bundið fyrir augun og tappa í eyrunum. Og svo finnst mér asnalegt að láta bara eins og ekkert sé og hlutirnir komi manni ekki við. Ég vona bara að þessar myndasýningar af niðurlægingu fanganna í Írak verði til þess að glæpamennirnir sem stjórna BNA fari frá. Ég get ekki einu sinni nefnt þá á nafn. Og svo mega þessir hrokagikkir sem ríkja á þessu skeri fylgja á eftir. Við þörfnumst byltingar!