þriðjudagur, júlí 20, 2004

Mætti aftur í vinnuna í dag eftir viku frí. Get ekki sagt að mér hafi þótt það sérstaklega gaman. Vinnan er ekki leiðinleg, ekki misskilja mig. Mig langar bara meira til að hangsa. Fara í hjólreiðatúra og svoleiðis. Á til dæmis eftir að kanna betur stígana í Öskjuhlíðinni. Hjólaði fram hjá henni í dag og enginn tími til að stoppa. Vantar alveg í mig starfsframalöngun, vil bara meira hangs, meira frí. Hví allt þetta strit? Nefni þetta í næsta starfsmannamati. Góð hugmynd hjá mér eða þannig.

Já heyrðu. Sif og Kristborg gerðu jafnvægisæfingar á hestbaki í dag. Lyftu handleggjunum upp til skiptis og svo báðum í einu á meðan hesturinn fór fetið eða brokkaði. Sif setti met; tveir og hálfur hringur í gerðinu með hendur upp fyrir höfuð! Svo áttu þær líka að snúa sér í hring við sömu aðstæður en þær treystu sé ekki í það nema Sif og þá eingöngu á meðan hesturinn stóð kyrr. Annars bara gleði heyrist mér. Fengu lummur í hádeginu (veit ekki hver semur matseðilinn þarna!) og máttu velja hvort þær fengju smjög og ost ofan á eða sykur (ekki batnar það). Vill einhver geta hvort þær völdu?
Fóru í Laugardalslaugina eftir hádegi og dönduluðust heima.
Hjólað um Dýrafjörð og Arnarfjörð
Meiri hjólreiðar

föstudagur, júlí 16, 2004

Þetta er nú bara svona um það bil eins og það á að vera. Sumarkjólaveður og yndislegt hangslíferni. Fyrst bjuggum við til hús í stofunni úr teppum og stólum. Komumst að því að teppin voru síðast notuð í lautarferð út á leikvöll með Sif, Nicole og Megan (Já, loksins kom Sif!) þegar stofan varð stráð heyi. Snérum mæðgnabönd. Lékum okkur svo úti til hádegis. Tókum þá til við að þvo hjólin sem voru í meiralagi rykug eftir hjólreiðarnar vestra. Sigtryggur reyndi sig á þríhjólinu sínu og okkur öllum til undrunar (ekki síst honum sjálfum) tókst honum að koma sér áfram fyrir eigin afli. Eftir það fékkst hann ekki af hjólinu nema með harmkvælum en var þó orðinn verulega pirraður því þetta gekk jú ekki fullkomlega hjá honum. Hjóluðum svo niður í Fossvog á bílaþvottastöðina til að nota stórvirkari tæki við hjólaþvottinn. Sú stöð slæst við Skeljung í Fellunum um titilinn Flottasta útsýnið við bílaþvottinn. Jæja, hjólin glansa og við höldum heim. Stoppuðum við á leikskólanum sem Sigtryggur byrjar á um miðjan ágúst. Spjölluðum við krakka yfir girðinguna og Sigtryggur varð afskaplega upprifinn af þessu öllu saman og talaði mikið um að kúka á leikskólanum! (kemur svolítið spánskt fyrir sjónir, drengurinn hefur nú ekki sýnt þessari athöfn sérstakan áhuga hingað til, hlýtur að vera einhvers konar koppauppeldi komið frá Huldu) Jæja, áfram heim að svæfa Sigtrygg. Við Kristborg sátum hins vegar ekki auðum höndum en tókum til við að hnoða deig í bollur. Skutluðum svo pabba út á flugvöll og sendum hann til Hornafjarðar að græða pening og fræða lýðinn. Skutluðumst sjálf niður á Laugaveg til að kaupa afmælisgjöf handa Jóa (flugdreka, ekki segja frá), og svo heim aftur. Allt á meðan deigið hefaðist. Hurru, brjálað að gera í bænum ma´ur. Fólk að spóka sig í blíðunni, Kristborg: “Hva, er menningarnótt eða hvað”. Nei ekki alveg en þetta slagaði hátt í þann fjölda. Jæja, bollurnar í ofninn og ömmu og afa og afa boðið í síðdegiskaffi úti í blíðunni.
 
Fórum upp í Reykjadal í gær til að baða okkur í heita læknum. Ferðin tók 3-4 klst á fæti og þar af rigndi í 20 mín einmitt þegar við ætluðum að hátt okkur ofan í lækinn. Þetta var ekki samkvæmt veðurspá og ekki umsamið.  Það fóru því bara sum okkar ofan í, þ.e. Kristborg og Megan. Nicole datt úr öllu stuði í rigningunni og mér fannst ekki freistandi að hátta okkur Sigtrygg, ekki síst þar sem við höfðum skilið sundfötin ásamt nestinu og myndavélinni eftir í bakpoka í andyrinu heima. Jæja, þegar baðið var búið og við tilbúin að leggja í hann til Hveragerðis gerði rjómablíðu á ný. Auðvitað. En dalurinn var fallegur og ísinn góður þegar gangan var á enda. Og við þreytt og sæl. Það var nú heldur meiri umferð af fólki þarna núna en þegar ég fór síðast. Það var þegar við vorum að gæsa Sólu og ætluðum að hefja kvöldið á hvítvíni í læknum, svo lágum við og kjöftuðum frá okkur allt vit, drukkum og skemmtum okkur stórkostlega þar til Þráinn kom labbandi ofan úr bíl til að gá að okkur (hann var sko bílstjórinn og beið eftir okkur upp á vegi), hélt eitthvað hefði kannski komið fyrir, við vissum ekkert hvað tímanum leið og orðnar langt á eftir áætlun. Við drifum okkur samt upp úr og komumst í bæinn og náðum einum drykk áður en barirnir lokuðu. Þetta er ógleymanlegt.
 
Já og loksins kom Sif. Ég held að Sigtryggur hafi verið farinn að halda að þetta væri einhvers konar ævintýrapersóna. Allt það sem átti að gerast "þegar Sif kemur". Þegar Sif kemur. Fyrir honum hlýtur þetta að hafa verið eins og hvert annað orðtak yfir það að ætla að gera eitthvað seinna. En svo kom hún! og Kristborg snérist í kringum sjálfa sig af kæti. Og ég var í góðu skapi í óvenju langan tíma samfleytt! og skar niður ávexti og smurði brauð handa stelpunum þegar það átti við. Gaman.





föstudagur, júlí 09, 2004

Ég svæfði Línu Langsokk í gærkvöldi. Lína hins vegar svæfði Tomma með því að knúsa hann segja “svona svona” og segja honum að hætta að gráta.
Lína er búin að vera ein af fjölskyldunni nú um nokkurt skeið og ég verð að segja að mér líkar það bara vel. Þetta hefur í för með sér heilmikla tilbreytingu, ég gegni til dæmis oft nafninu pabbi þar sem Lína á jú enga mömmu og aðrir fjölskyldumeðlimir fá að gegna hlutverkum Herra Níelsar, Tomma og Önnu. Og svo eru peningakassar Línu bókstaflega út um allt hús. Sem þýðir mikið ríkidæmi. Ágúst stakk upp á að ég kynnti son minn fyrir Emil, fannst það líklega betri fyrirmynd en Lína a.m.k. hvað kyn varðar en ég kann alveg ágætlega við Línu. Lifi Lína!