Hmm, síðan síðast hefur nú ýmislegt skeð. Spurning hvort ástæða er til að fara í þann sparðatíning að þylja það upp. Geri það samt, svona svo gögnin liggi fyrir.
Sum sé.
Fórum út að borða á Lækjarbrekku á föstudaginn með þeim sem stóðu að jarð- og líffræðinámskeiðinu fyrir bandarísku nemendurna í sumar og við Þráinn komum aðeins að (hann meira en ég). Þar rifjaði Gísli Már upp baráttuna gegn því að Torfan yrði rifin og morgunblaðshús byggð þar í staðinn. Skrautleg saga af honum, Sigga Snorra, Kristni Sigmundssyni og Megasi syngjandi baráttusöng í brekkunni sem var undanfari að stofnun Torfusamtakanna. Það sýnir sig að það borgar sig þegar upp er staðið að láta ekki endalaust yfir sig ganga og að stjórnamálamenn vita ekki baun í bala betur en við.
Sif fór. Og við grétum öll.
Innipúkinn var haldinn hátíðlegur á laugardaginn. Hvað stendur upp úr?
Hmmm. . .
Mammút kom mér í opna skjöldu og eftir að ég reiknaði aldur barnanna inn í dæmið eru þau enn meira furðuverk.
Súkkat voru frábærir.
Skakkamannage voru þétt og góð og vinsælust hjá okkur!
Og Benni hemm hemm var skemmtilegur.
En Ómar var einstakur. Ég sá útlending í framan eins og hann vissi ekki hvaðan á sig stæði veðrið og ég skil það vel. Það er ekki hægt að útskýra gleði múgsins yfir Ómari fyrir þeim sem ekki hefur alist upp með honum. Og maðurinn er ofvirkur. Ég gæti ekki hoppað, hamast og trallað eins og hann fyrir mitt litla líf enda var ég viss um að nú yrði brunað með manninn beint á bráðamóttöku þegar hann gekk af sviðinu.
Bæjó
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)