föstudagur, desember 10, 2004

Kæru vinir!
Þið eruð náttúrlega að springa af forvitni um hvað ég og mín fjölskylda ætlum að bardúsa um helgina.
Svarið er: við ætlum í sumarbústað! Það er nefnilega svo notalegt!
Til þess að gera þetta ætla ég að skrópa í jólahlaðborðið sem vinnufélagarnir ætla í enda eru jólahlaðborð að komast úr tísku og bráðum getur maður ekki verið þekktur fyrir að stunda slíkt! Hins vegar verður brunað til baka á sunnudaginn til að ná á jólatónleika í Salnum enda eru jólatónleikar á hátindi vinsælda sinna. Við munum því fylgja fjöldanum í þessu eins og öðru. Mjög mikilvægt. Erum meira að segja búin að fara á eina jólatónleika nú þegar og fáum þannig aukaprik í kladdann. Við laumumst reyndar til að vera lummó líka og leituðum uppi jólaglöggsblöndu til að blanda rauðvínið með en þetta má ekki fréttast enda er jólaglögg algerlega úti þessa stundina.
Jólaundirbúningurinn gengur annars bara vel, takk fyrir að spyrja! Það var allt skreytt heimavið og 3 tegundir að smákökum tilbúnar þegar aðventan gekk í garð. Við höfum átt afar hátíðlegar stundir þessa tvo fyrstu sunnudaga í aðventunni með kertaljósum, smákökuáti og sagnalestri. Nú er svo komið að Sigtryggur biður um smákökur og mjólk í hvert sinn sem hann rekur augun í jólasögubækurnar. Þessi snemmundirbúningur jólanna kemur nú til af því að hún dóttir mín kær var farin að stressast út af jólunum fyrir miðjan nóvember með spurningum eins og: Hvað ef eitthvað fer úrskeiðis? Og: Ég er svo hrædd um að við verðum ekki tilbúin!
Við virðumst þó hafa náð tilætluðum árangri því hún er nú bara orðin slök yfir þessu núna. Og mér finnst að ég ætti að fá verðlaun fyrir góða frammistöðu að þessu leyti!
Jæja, kæra fólk, nóg í bili, takk fyrir að hlusta!

föstudagur, desember 03, 2004

Stóra desemberkreppan:
Greiðir maður úr flækjunni á gömlu jólaseríunni eða kaupir maður nýja á 100 kall?

Já það eru engin smámál sem halda vöku fyrir mér þessa dagana.