laugardagur, apríl 09, 2005

Krakkarnir mínir léku sér svo vel saman í gær (og þá verður mamma svo glöð :) ). Þau gerðu hús úr stólum og teppi í stofunni sem var einhvers konar sjóræningjabyrgi og söfnuðu þangað alls kyns gulli og gersemum. Eftir kvöldmatinn róaðist leikurinn og þau fóru að teikna saman. Sigtryggur fylgdist andaktugur með Kristborgu teikna manneskju, sem átti að vera hann. Hún teiknaði allt nema fæturna sem hann átti að fá að gera. Þá upphófst athyglisverður málarekstur. Sigtryggur stóð nefnilega á því fastar en fótunum að fæturnir ættu að koma út úr höfðinu á kallinum! Kristborg gerði allt sem hún gat til að sýna honum fram á að þeir ættu að koma út úr búknum, en án árangurs. Hann fékk því sitt fram á endanum og úr varð þessi fína mynd teiknuð í stíl blandaðrar stefnu 8 og 2 ára þroskastigs!

Svo var ég aldrei búin að segja frá því þegar við héldum uppi heiðri vannýttra endhúsáhalda og -tækja í sumarbústað við Álftavatn í byrjun mars. Þar var gert heimatilbúið tagliatelle pasta með pastagerðarvélinni, sushi með sushigerðarsettinu og ís í ísgerðarvélinni. Þetta var nautnahelgi, nema hvað ég var ekki til neinnar skemmtunar (frekar en vanalega svo sem) hundslöpp og þreytt. En þau hin, Svavar, Berglind, mamma, pabbi, Þráinn og börnin voru sæt og góð eins og þau eiga að sér.

Og við fórum á árshátið í vinnunni minni í frábærum sal í Iðu. Skemmtiatriðin vor hvert öðru betra og við vinkonurnar sem héldum að við yrðum með atriði aldarinnar með söngmyndbandinu okkar vorum bara (næstum :), játa okkur ekki alveg sigraðar) slegnar út með atriðum annarra. UVS var með frábæra stuttmynd og hin slógu í gegn líka. Svavar og Berglind voru með útgáfupartí Skakkamanage í Hvíta koti sama kvöld og við hjónin brugðum okkur þangað. Því miður misstum við af pabba kveða rímur og fara með gamanmál ásamt öllum öðrum dagskrárliðum en þegar við komum var dynjandi diskóstuð! og gleði eins og þessum félagsskap virðist eðlislægt.

Já og vorið kom og við horfðum á runnana bruma og krókusana skjóta upp kollinum og lóan kom og býflugan vaknaði. En veturinn kom aftur, móðgaður yfir að vera talinn af, nógu lengi til að við gátum rennt okkur nokkrar bunur á snjóþotu, gert snjókarl og snjólistaverk. Ég held að vorið sé komið á ný en það er bara engu treystandi í þessum efnum.

Og Hrefna og Anna Sólrún komu í heimsókn sem var æði. Söknuðurinn eftir Stanford kaflanum í lífi mínu er ekki horfinn og þær eru hluti af honum. Ekki gleyma að ég er líka full af þakklæti yfir honum, hann verður hvergi endurtekinn. Það tekur bara eitthvað nýtt við.

Í dag:
Sigtryggur: Mamma, hvar er pabbi?
Ég: Á ráðstefnu. Hann er að spjalla við fólk og læra ýmislegt nýtt.
Sigtryggur: Ó. Kannski er hann að læra að skjóta af fallbyssu!

Og Kristborg fékk að gista hjá ömmu og afa í nótt "Mig langar að taka einn slag við ömmu"

Kveðjur,
Elsa