Ég er hátt uppi í kvöld, með rauðvín og súkkulaði í munninum, Kraftwerk í eyrunum, dýrindis kvöldmat a la Þráinn í maganum, pavlovu í ofninum, efni í Pinjada í skottinu á bílnum og trampolín út í garði (eins og vera ber ef maður ætlar að vera maður með mönnum á Íslandi í dag). Afmælistíð Kristborgar er gengin í garð og bekkjarafmæli skipulagt á fimmtudag. Og svo erum við nýkomin úr sveitinni og þótt ég hafi velt því fyrir mér fram og aftur í dag hvernig ég gæti mögulega breytt um lífsstíl á þann hátt að ég gæti eytt sumrunum í sveitinni og minnkað stressið þá líður mér bara þokkalega í augnablikinu. Ég kom eiginlega ekki endurnærða úr fríinu heldur haldin meiri þrá eftir meira fríi. Sveitaferðin var ævintýri. Í dag er það lúxus að geta farið með börnin í sveit. Kristborg var í skýjunum og tók að sér pelagjafir til svöngu lambanna þriggja þrisvar á dag og Sigtryggur hjálpaði til af stakri prýði. Og þau fylgdust andaktug með burðinum. Sigtryggur átti gullmola:
(Sigtryggur talar hátt og snjallt og skemmtir öllum viðstöddum)
Sigtryggur: "mamma, ég er lítill!"
Ég: "já þú ert lítill en þú ert að stækka og ert nú orðinn svolítið stór"
Sigtryggur:"Kristborg fædddist á undan mér!"
Ég: "já"
Sigtryggur: "Ég er nýborinn!"
Ég: hvumsa
Sigryggur: "Það var slím á mér þegar ég fæddist!"
Ég: "já"
Sigtryggur: "Þú sleiktir mig!"
Ég hjálpaði kindum við burð í fyrsta sinn sem var mitt ævintýri. Gleðilegt ævintýri af því að það lukkaðist. Svo fórum við í fjallgöngu og fjöruferð og margt margt fleira sem of langt mál væri upp að telja. Og mamma og pabbi voru með og Svavar, Berglind og Elísa líka. Svaka gaman.
mánudagur, maí 30, 2005
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)