þriðjudagur, júní 28, 2005

Nú er ég búin að fara með hana Sky vinkonu mína á helstu viðkomustaði Suðurlands. Það er gaman að gefa sér loksins tíma til að nema staðar við Skógafoss, Seljalandsfoss, Jökulsárlón o.s.frv. Ég mæli ótvírætt með ferð út í Ingólfshöfða að skoða lunda, skúm og fleiri fugla með ábúendum á Hofsnesi.
Best var að koma í sveitina þó, í Berunes. Stússast í fé, reka það í rétt, gefa lömbum ormalyf, mjólka eina sem var ósogin öðrumegin, vasast eitthvað. Ganga æðarvarpið, búið að vera kalt vor, fjallið er enn grátt og haginn ekki orðinn grænn heldur, kollurnar sitja enn, verptu með seinna fallinu í vor. Siggi var enn með féð í túninu en við slepptum hluta þess upp í fjall í vikunni. Þær voru orðnar svo spenntar að þær hlupu af stað upp túnið þegar hann opnaði hliðið, það þurfti engan rekstur. Litla lambið er enn inni í húsi, stækkar þó.
Börnin léku sér í búinu, Sigtryggur er orðinn áhugasamari en Kristborg og eldar af miklum krafti. Hún tekur þó til hendinni í eldhúsinu öðru hverju en er farin að hafa hugann við aðra hluti, leikurinn er að minnka í henni. Eða breytast. Ég kom heim með stóran poka fullan af rabarbara og er búin að elda sultu úr helmingnum í margar krukkur. Úti í skúr bíður poki af æðardún eftir að vera sendur í hreinsun. Á morgun.
“Think globally, eat locally” hefur verið mér ofarlega í huga upp á síðkastið og ég rækta kartöflur og skipulegg sultun á berjum og rabarbara, krækiberjapressun o.s.frv. Uppskerusúpur og heimabakað brauð skal vera þema haustsins. En í kvöld lögðumst við hjónin í ítalskar uppskriftir á panforte biscotti og risotto (undir rabarbarasultulykt), sem kom mér í ekki lægri hæðir. "My emotional life" skal vera heitið á ævisögu minni. Gæti orðið krassandi fyrir þá sem hafa á annað borð áhuga á slíku. Kveðjur, Elsa.