þriðjudagur, apríl 28, 2009
Erik sonur hennar Sky fékk krabbamein fyrir nokkrum árum. Hann hefur náð sér aftur en það eru helmingslíkur á að það taki sig upp aftur. Þetta þýðir að hann getur ekki keypt sér sjúkratryggingu. Sky hefur getað haft hann áhangandi á tryggingunni sem hún fær í vinnunni sinni en þegar hann verður 24 ára í vor hefur hún ekki lengur rétt á því. Drengurinn er ennþá í skóla og verður því tryggingalaus þar til hann fær sér sjálfur vinnu. Þetta er gott dæmi um harðneskjulega birtingarmynd heilbrigðistryggingakerfisins hér í BNA. Grundvallarvillan í því er sú að það er byggt upp til að skila hagnaði en ekki til að þjóna sjúklingum. Svo ég ljúki sögunni af Sky og Eric þá vill svo vel til að pabbi hans er ríkisborgari í Kanada og drengurinn fer þangað í vor og sest að hjá föður sínum til að komast inn í sjúkratryggingakerfið þar. Farsæll endir á þeirri sögu, að minnsta kosti í bili, vonum það besta.
sunnudagur, apríl 26, 2009
Ég fór með eldri börnunum á Saturday market hér í Eugene í dag. Afraksturinn var 2 "tie dye" flíkur, dolla af leir og 4 barmmerki með mikilvægum skilaboðum eins og: "make tea not war". Meðan við skoðuðum þann bás vel og vandlega spjallaði einn af eigendum hans við okkur og sagðist vera sósíalisti (hvað annað, hverjir aðrir eru tilbúnir til að tjá sig svo fjálglega á torgum) og sagðist m.a. hafa miklar áhyggjur af ívilnun kirkjunnar í líf fólks eins og afskipti af kynningu þróunarkenningarinnar í barnaskólum. Ég er að sjálfsögðu jafn áhyggjufull og hann af þessu ástandi mála og skil alls ekki hvernig trú og vísindi geta verið sett á sama pallborð á þennan hátt. Varð hins vegar að játa fyrir honum (aðspurð) að kirkjan væri rekin af ríkinu á Íslandi og grunnskólarnir væru allir kristilegir skólar með kristinfræðiuppfræðslu í öllum árgöngum. Varð hálf kindarleg við þetta og fegin að þetta var ekki rökrætt frekar. Stóð mig að því að reyna að finna á þessu þær jákvæðu hliðar að kannski væri trúarhitinn minni af þessum sökum, að minnsta kosti væri kirkjurækni ekki mikil, en það rann nú hálpartinn út í sandinn. Þegar við komum heim var Þráinn sokkinn í kosningasjónvarpið og ég stakk mér út í. Er rétt að koma upp úr núna.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)